Tónlist

Föstudagsplaylisti sideproject

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Myndræn framsetning á eðli sveitarinnar.
Myndræn framsetning á eðli sveitarinnar. aðsend

Rafsuðuþríeykið sideproject samanstendur af Örlygi Steinari Arnalds, Atla Finnssyni og Hjálmari Karlssyni. Þeir eru allir innvígðir og innmúraðir meðlimir unglistafylkingarinnar post-dreifingar sem hefur mikið látið á sér kræla síðustu ár.

Atli og Örlygur eru einnig meðlimir fjölmennu kraut-brælusveitarinnar Korter í flog sem er sömuleiðis nátengd post-dreifingu, en sveitin á einmitt gestainnkomu á laginu Skjóta Andy Warhol, Pt. 1 af nýútkominni tvöfaldri plötu sideproject.

Platan, sem kom út fyrir viku síðan, er önnur útgáfa sveitarinnar og ber titilinn sandinista release party / ætla að fara godmode. Áður hafði komið út með þeim platan isis emoji.

Tryllingslegt taktsull og önnur rafglöp sveitarinnar njóta stuðnings ýmissa annarra listamanna en Korters í flog á plötunni nýju, þar má t.d. nefna GRÓU, Bleachkid, dj flugvél og geimskip, susan_creamcheese, SiGRÚN og Stirni.

Sveitin kemur fram síðla laugardagskvölds á Norðanpaunki á Laugarbakka um helgina, en sú samkoma er að öllu leyti skipulögð og framkvæmd með sjálfboðavinnu, án gróðasjónarmiða. Slík speki einkennir einmitt líka um margt post-dreifingu.

Lagalistinn minnir kannski að einhverju leyti á tónleika sveitarinnar, með minni ofsakeyrslu en meiri furðulegheitum. Svolítið eins og pulsa með kartöflusalati, túnfiskssalati, remúlaði, gúrkum, tómötum og kokteilssósu. Maður heldur að það eigi ekki að passa saman en svo gerir það það.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.