Innlent

Flugfélag Íslands fækkar flugvélum niður í fjórar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Árni Gunnarsson er framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands ehf.
Árni Gunnarsson er framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands ehf. Stöð 2/Þorsteinn Magnússon.
Flugfélag Íslands hefur ákveðið að skera flugflota sinn niður um þriðjung og fækka flugvélum úr sex niður í fjórar. Tíu prósenta samdráttur er í farþegafjölda frá áramótum en framkvæmdastjóri félagsins telur þó að innanlandsflugið eigi eftir að eflast á ný. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. Flugfélagið blés til sóknar fyrir þremur árum þegar það keypti þrjár Bombardier Q400 vélar og fékk auk þess eina styttri Q200 í skiptum þegar gömlu Fokkerarnir voru seldir. Þar með var félagið komið með sex Bombardier-vélar, þrjár lengri og þrjár styttri, en núna eru tvær þeirra til sölu.

Bombardier Q400. Flugfélagið hyggst reka tvær slíkar áfram og tvær af minni gerðinni, Q200.Mynd/Stöð 2.
„Við erum búin að vera að skoða bæði langtímaverkefni og sölu á einni Q400 í svolítinn tíma. Það hefur ekki gengið eftir. Markaðurinn þar er frekar þröngur en við erum auðvitað að nota þá vél núna í skemmri tíma leiguverkefni,“ segir Árni en þar vísar hann til þess að Icelandair nýtir vélina vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX-vélanna. „Q200 vélin, sem við ákváðum í síðustu viku að setja á sölu, - við erum svona að skoða þann markað. Það er bara rétt að hefjast, - fyrstu metrarnir á þeirri vegferð.“

Styttri gerðin, Q200, í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. Ein þriggja slíkra hefur nú verið boðin til sölu.vísir/stefán
Útrás til Aberdeen og Belfast gekk ekki eftir og svo hefur farþegum fækkað innanlands. „Það sem af er þessu ári hefur þetta verið rúmlega tíu prósent. Það er töluvert á stuttum tíma.“ Hlutfall erlendra ferðamanna í innanlandsflugi á sumrin vekur athygli. „Allt upp í 30-40 prósent á sumartímanum. Og þá með þessari miklu fækkun erlendra ferðamanna sem hefur orðið núna í sumar þá finnum við meira fyrir því núna í sumar. En síðan er það minna á veturnar.“ Loðnubrestur hafði áhrif á innanlandsflugið. „Sérstaklega hefur hagvöxtur á landsbyggðinni verið lítill og neikvæður á undanförnum árum á ákveðnum svæðum. Það sjáum við í tölunum hjá okkur.“

Frá Egilsstaðaflugvelli. Farþegafækkun í innanlandsflugi er meðal annars rakin til tekjusamdráttar á landsbyggðinniMynd/Stöð 2.
Sparnaðaraðgerðir fela meðal annars í sér fækkun ferða í vetur til Egilsstaða og Ísafjarðar og tíðari notkun styttri vélanna í stað þeirra lengri. Árni segir ekkert liggja fyrir um fækkun starfsmanna. „Það má búast við að það verði einhverjar breytingar. En við eru ekki að sjá fyrir okkur einhverja verulega fækkun í tengslum við þetta.“ Hann spáir því að innanlandsflugið eflist á ný. „Um leið og hagkerfið tekur við sér aftur, sérstaklega á landsbyggðinni, sem það mun gera, - ég hef trú á því, - þá verði aftur vöxtur í innanlandsfluginu hjá okkur.“ 

 

Leiðrétting: Í frétt Stöðvar 2 sagði að erlendum ferðamönnum hefði fækkað um 30-40%. Hið rétta er að verið er að ræða um hlutfall erlendra ferðamanna í innanlandsflugiHér má sjá frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir

Drög að flugstefnu lögð fram

Verkefnisstjórn sem unnið hefur að mótun flugstefnu fyrir Ísland hefur skilað Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, drög­um að grænbók um stefnuna. Grænbókin hefur nú verið lögð fram til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Skrúfuþota Ernis kyrrsett

Isavia hefur kyrrsett Dornier skrúfuþotu flugfélagins Ernis á Reykjavíkurflugvelli vegna þjónustugjalda sem félagið skuldar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.