Innlent

Ætlar að þrýsta á ráðherra í sameiningarmálum og snjómokstri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vindbelgarfjall í Mývatnssveit skartar sínu fegursta í sumar.
Vindbelgarfjall í Mývatnssveit skartar sínu fegursta í sumar. Vísir/Vilhelm
Árlegur sumarfundur ríkisstjórnarinnar stendur nú yfir í Mývatnssveit. Eftir hádegi verður fundað með sveitarstjórnum á svæðinu þar sem þeim gefst tækifæri á vekja athygli á lykilmálum. 

Dagskráin hófst með ríkisstjórnarfundi í morgun og á eftir situr ríkisstjórnin fund með fulltrúum þrettán sveitarfélaga á svæðinu. Einn þeirra er Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps og gestgjafi fundarins.

„Við erum mjög ánægð að þau velji Mývatnssveit til að heimsækja. Það verður gaman að taka á móti þeim og forvitinilegt að spjalla við þau í dag,“ segir Helgi.

Efst á baugi í Skútustaðahreppi er möguleg sameining við Þingeyjarsveit. Ætlar Helgi að nota sinn tíma á fundinum til að ræða þau mál við ríkisstjórnina.

„Okkar tími og púður fer í að skoða þau mál og vekja athygli á mikilvægi þess að ríkið styðji bæði faglega og fjárhagslega við sameiningarhugleiðingar sveitarfélaga.“

Þá ætlar Helgi líka að ræða samgöngumál, þar með talið skort á snjómokstri á Dettifossvegi sem staðið hefur ferðaþjónustuaðilum fyrir þrifum.

„Þetta er þjóðhagslega mikilvægur ferðamannastaður og vandséð hvers vegna honum er ekki sinnt betur. Þarna er mjög góður nýlegur vegur að kraftmesta fossi í Evrópu, gríðarlega vinsæll áfangastaður ferðamanna. Ég myndi halda að við þyrftum að setja meiri áherslu í að sinna honum betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×