Innlent

„Mögnuð sýning fyrir augu og eyru“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þessa mynd tók Róbert Marvin Gunnarsson út um svefnherbergisgluggann hjá sér á Höfn í gærkvöldi.
Þessa mynd tók Róbert Marvin Gunnarsson út um svefnherbergisgluggann hjá sér á Höfn í gærkvöldi. Mynd/Róbert Marvin Gunnarsson
Íbúar á Höfn í Hornafirði segja þrumuveðrið sem gekk yfir landið í gærkvöldi, og sem gætti einkum í bænum, hafa verið magnað sjónarspil. Þrumuveðrið er það mesta sem mælst hefur á Íslandi frá upphafi mælinga. Myndbönd af eldingum sem laust niður í grennd við Höfn fylgja fréttinni.

1818 eldingar voru skráðar á meðan þrumuveðrið gekk yfir en þær voru flestar á Suður- og Suðausturlandi. Veðrið stóð yfir í 24 klukkustundir og var mest frá því klukkan 18 til 23 í gærkvöldi.

Jón Garðar Bjarnason, aðalvarðstjóri á Höfn, segir í samtali við Vísi að hann minnist þess ekki að hafa séð viðlíka þrumuveður og í gær. Engar tilkynningar hafi þó borist lögreglu vegna þrumuveðursins eða tjóns af völdum þess.

„Þetta dundi á í töluverðan tíma, þetta voru miklar þrumur og miklar eldingar sem gengu á fyrir sunnan okkur,“ segir Jón Garðar. „Mögnuð sýning fyrir augu og eyru.“

Róbert Marvin Gunnarsson íbúi á Höfn tekur undir með Jóni Garðari. Þá hafi það fyrst og fremst verið skemmtilegt að fylgjast með þrumuveðrinu í gær. Hann tók myndina sem fylgir fréttinni út um svefnherbergisgluggann heima hjá sér á Höfn.

„Ég hef verið staddur í Brasilíu í þrumuveðri og þetta var bara svipað,“ segir Róbert í samtali við Vísi.

Myndböndin hér að neðan tók stjúpmóðir Róberts af eldingum sem laust niður í Myllulæk rétt utan við Höfn í gærkvöldi.

Klippa: Eldingar við Myllulæk

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×