Innlent

Þrumuveðrið í nótt það mesta sem mælst hefur á Íslandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skráðar eldingar voru 1818 en þær má sjá á meðfylgjandi korti.
Skráðar eldingar voru 1818 en þær má sjá á meðfylgjandi korti. Mynd/Veðurstofa Íslands
Þrumuveðrið sem gekk yfir landið í gærkvöldi og í nótt er mesta þrumuveður sem mælst hefur á Íslandi síðan beinar mælingar og staðsetningar á eldingum hófust  árið 1998. Skráðar eldingar voru 1818. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Þrumuveðrið var mest suður- og suðaustur af landinu en engar eldingar mældust á Suður- og Vesturlandi, þ.e. Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði.

Veðrið stóð í 24 klukkustundir. Fyrsta eldingin var skráð klukkan 06:46 í gær, 29. júlí, og sú síðasta klukkan 07:05 í morgun, 30. júlí, en síðast var gerð athugun klukkan 9 í morgun. Þrumuveðrið var mest frá því klukkan 18 til 23 í gærkvöldi. Skráðar eldingar voru 1818 og sjást á meðfylgjandi korti.

Haraldur Eiríksson veðurfræðingur á Veðurstofunni sagði í samtali við Vísi í morgun að þrumuveðrið hefði verið einkar öflugt og líkti því við þrumuveður í útlöndum. Á áttunda tímanum í morgun höfðu engar tilkynningar um þrumuveðrið eða tjón af völdum þess borist Veðurstofunni. Ekki er gert ráð fyrir frekara þrumuveðri í vikunni en ágætisspá er nú í kortunum fram að verslunarmannahelgi.


Tengdar fréttir

Vara við þrumuveðri í kvöld og nótt

Hlýtt loft hefur gengið yfir landið í dag en líkur eru á kaldara lofti í kvöld sem getur myndað óstöðugleika sem veldur þrumum og eldingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×