Innlent

Stöðva innflutning á „undrakaffinu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Um er að ræða Valentus SlimROAST Optimum Kaffi og Prevail SlimROAST kakó.
Um er að ræða Valentus SlimROAST Optimum Kaffi og Prevail SlimROAST kakó. Mynd/MAST
Matvælastofnun hefur upplýst Tollayfirvöld um lyfjavirkt innihaldsefni í tveimur vörum sem nefnd voru í fréttatilkynningu stofnunarinnar í gær. Um er að ræða kaffi og kakó frá bandaríska framleiðandanum Valentus sem Matvælastofnuna hefur varið við neyslu á. Innihalda þessir drykkir beta-phenylethylamín sem er örvandi lyf en fagsviðsstjóri hjá stofnuninni segir í svari til Vísis að sendingar með þessum vörum verða væntanlega stöðvaðar af tollayfirvöldum þegar þær berast til landsins.

Vörurnar sem tollurinn mun stöðva eru Valentus SlimROAST Optimum Kaffi og Prevail SlimROAST kakó. Hafa þessar vörur verið til sölu á samfélagsmiðlum og á vefsíðum þar sem kaffið hefur ýmist verið kallað töfrakaffi eða undrakaffi. Framleiðandinn segir vörurnar hjálpa þeim sem nota þær við þyngdarstjórnun og er því haldið fram að þær geti jafnframt bætt skap fólks.

Vörurnar tvær sem tollurinn mun stöðva.Mast.is
Ingibjörg Jónsdóttir, fagssviðsstjóri hjá Matvælastofnun, segir í skriflegu svari til Vísis að samkvæmt matvælalögum er óheimilt að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf sker Lyfjastofnun úr. 

Innflytjandi getur því sent vöruna til flokkunar hjá Lyfjastofnun til að fá úr því skorið hvort varan falli undir skilgreiningu á lyfi. Sjá nánar á vef Lyfjastofnunar.

Á meðan varan hefur ekki fengið flokkun hjá Lyfjastofnun og einnig á meðan varan er í ferli hjá Lyfjastofnun er innflutningur og dreifing ekki heimil skv. matvælalögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×