Bíó og sjónvarp

James Cameron óskar Marvel til hamingju með að hafa slegið met sitt

Birgir Olgeirsson skrifar
Robert Downey jr. og Chris Evans í Avengers: Endgame.
Robert Downey jr. og Chris Evans í Avengers: Endgame.

Leikstjórinn James Cameron hefur óskað kvikmyndaverinu Marvel til hamingju með að eiga í dag tekjuhæstu kvikmynd allra tíma. Um er að ræða myndina Avengers: Endgame sem kom út fyrr í ár og hefur slegið met sem Avatar, mynd James Cameron, átti áður.

Avengers: Endgame náði þessum áfanga um liðna helgi þegar ljóst var að myndin hafði þénað 2,79 milljarða dollara á heimsvísu en Avatar þénaði 2,78 milljarða á heimsvísu fyrir um áratug.

Fyrr á árinu hafði Cameron óskað Marvel til hamingju með að Endgame hafði komist yfir kvikmynd hans Titanic í tekjum. Avengers: Endgame hefur slegið fjölda meta, þar á meðal fyrir stærstu opnunarhelgi allra tíma en myndin þénaði 1,2 milljarða dollara á heimsvísu fyrstu helgina sína.

James Cameron er hvergi nærri hættur að framleiða myndir en hann er með í bígerð fjórar Avatar myndir en sú fyrsta verður frumsýnd í desember árið 2021.

James Cameron. Vísir/Getty


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.