Innlent

Bjartviðri og allt að 20 stiga hiti í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sólin lætur líklega sjá sig í höfuðborginni í dag.
Sólin lætur líklega sjá sig í höfuðborginni í dag. Vísir/vilhelm

Í dag verður fremur þungbúið fyrir norðan og austan og væta á köflum. Hiti yfirleitt 8 til 14 stig. Það er hins vegar bjartara og mun þurrara sunnan- og vestantil en áfram líkur á skúrum, einkum síðdegis. Þá gæti hiti farið upp undir 20 stig þar sem best lætur. Norðaustlæg átt ríkjandi næstu daga.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir þó að talsvert flökt sé á spánum. Líkur séu á hvassviðri og ferðalangar beri að hafa það í huga.

„[…] og er það aðallega vindhraði sem spárnar eiga erfitt með að reikna rétt. Því er ágætt að hafa það í huga að ef verið er að ferðast með aftanívagna að margir hverjir þola ekki meir en 12-15 m/s áður en hætta fer að skapast, en þannig aðstæður geta myndast við fjöll og ber því að hafa varann á sér.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Norðan 3-8 m/s og dálítil rigning NV til framan af degi, en annars hæg breytileg átt og skúrir á víð og dreif. Hiti 8 til 14 stig fyrir norðan, en allt að 18 stigum á Suðurlandi. 

Á föstudag:
Austan og norðaustan 5-13 m/s og víða rigning, en úrkomulítið vestast. Austlægari um kvöldið. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast syðst. 

Á laugardag:
Suðaustlæg átt, 3-10 m/s og rigning í flestum landshlutum, en styttir upp NA-lands með morgninum. Hiti víða 10 til 18 stig, svalast við A-ströndina og á Ströndum. 

Á sunnudag:
Suðaustlæg átt og rigning með köflum SA-til, en annars úkomulítið. Hiti víða 13 til 18 stig. 

Á mánudag:
Suðlæg eða breytileg átt og væta í flestum landshlutum, en áframhaldandi hlýindi. Víða þurrt seinnipartinn. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hlýja og yfirleitt þurra austlæga átt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.