Innlent

Sjólaskipabróðir ákærður fyrir 245 milljóna skattsvik

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. Embættið hefur ákært Sjólaskipasystkinin fjögur í tengslum við rannsókn á meintum skattalagabrotum.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. Embættið hefur ákært Sjólaskipasystkinin fjögur í tengslum við rannsókn á meintum skattalagabrotum.
Haraldur Reynir Jónsson, einn systkinanna sem kennd eru við útgerðarfyrirtækið Sjólaskip, hefur verið ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa vantalið tekjur sínar árin 2005-2008 að fjárhæð rúmlega 245 milljóna króna. Þetta kemur fram í ákæru á hendur Haraldi sem fréttastofa hefur undir höndum.

Sjá einnig: Sjólaskipasystkinin ákærð fyrir meint skattalagabrot

Greint var frá því í síðustu viku að embætti héraðssaksóknara hefði gefið út ákærur á hendur Sjólaskipasystkininum, Guðmundi Steinari Jónssyno, Ragnheiði Jónu Jónsdóttur og Berglindi Björk Jónsdóttur, auk áðurnefnds Haralds, í tengslum við meint skattalagabrot. Systkinin eru ákærð hvert í sínu lagi auk þess sem bræðurnir eru ákærðir saman í einu máli.

Ákæra Haraldar er sú eina sem hefur verið birt í málinu. Ákæran lýtur aðallega að greiðslum frá félaginu Kenora Shipping Company, sem Haraldur er sagður endanlegur eigandi að í ákæru. Eru vanframtaldar tekjur sagðar nema alls rúmum 245 milljónum króna og þannig um að ræða samtals 70 milljóna króna vangreiðslu. Embætti héraðssaksóknara fer fram á að Haraldur verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Töluvert hefur verið fjallað um mál systkinanna í fjölmiðlum undanfarin ár. Þannig greindi Fréttatíminn frá því í nóvember árið 2016 að skattrannsóknarstjóri hefði kært viðskipti systkinanna í skattaskjólinu Tortólu til héraðssaksóknara. Í frétt blaðsins kom m.a. fram að aflandsfélögin á Tortólu hefðu verið notuð til að greiða kreditkortareikninga fjölskyldumeðlima.

Í frétt Fréttatímans og Reykjavík Media frá því í október 2016 kemur jafnframt fram að Sjólaskip hafi átt útgerð á Kanaríeyjum sem fyrirtækið seldi Samherja árið 2007 fyrir nokkra milljarða króna. Nöfn systkinanna fjögurra sem eru ákærð nú var enn fremur að finna í Panamaskjölunum svokölluðu frá Mossack Fonseca.

Ákærurnar verða þingfestar í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. ágúst næstkomandi, samkvæmt dagskrá á vef dómstólanna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.