Innlent

Sóttu ökklabrotna konu á Fimmvörðuháls

Sylvía Hall skrifar
Konan var flutt á sexhjóli í sérútbúinn jeppa.
Konan var flutt á sexhjóli í sérútbúinn jeppa. Landsbjörg
Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út vegna konu á Fimmvörðuhálsi sem var talin vera ökklabrotinn. Konan hafði verið á göngu í tíu manna hópi þegar hún hrasaði á gönguleiðinni og slasaðist.

Útkallið barst á fimma tímanum í dag en óhappið varð á svipuðum slóðum og útköll björgunarsveita hafa verið síðustu daga. Þrjú slys urðu á fimm dögum á Fimmvörðuhálsi fyrir skemmstu en að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, spilar tíðarfar og mannfjöldi þar inn í.

Hópurinn var staddur á svæði þar sem var lélegt símasamband og því gekk brösulega að fá upplýsingar í fyrstu. Fljótlega kom í ljós að líðan konunnar var verri en talið var vegna mikilla verkja og var hún orðin köld og hrakin.

Björgunarsveitir komu að konunni tæpum tveimur klukkustundum eftir að útkall barst og hóf að verkjastilla hana og búa hana til flutnings. Hún var flutt á sexhjóli að sérútbúnum jeppa sem fór til móts við sjúkraflutningamenn sem komu í samfloti við björgunarsveitarfólk upp á Fimmvörðuháls.

Rétt fyrir klukkan níu í kvöld var konan komin í sjúkrabíl við Skóga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×