Innlent

Styður sáttatillögu Haraldar um sæstreng og þjóðaratkvæðagreiðslu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/vilhelm
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist styðja hugmynd flokksbróður síns, Haraldar Benediktssonar, um þriðja orkupakkann. Tillagan felur í sér að samþykki meirihluti Alþingis lagningu sæstrengs taki sú samþykkt ekki gildi nema meirihluti þjóðarinnar samþykki þá ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Haraldur setti hugmyndina fram í grein sem hann skrifaði og birtist í Morgunblaðinu á mánudag. Flokksbróðir hans, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um innleiðingu þriðja orkupakkans sem afgreiða á frá Alþingi í ágúst.

„Sú hug­mynd er hér sett fram að áskilja það í inn­leiðingu orkupakka 3 að setja laga­ákvæði um að slík teng­ing verði aðeins með samþykki þjóðar­inn­ar í sér­stakri at­kvæðagreiðslu. Sæ­streng­ur og bygg­ing grunn­tengi­virkja fyr­ir slíka teng­ingu verði því aðeins að meiri­hluti lands­manna samþykki það í at­kvæðagreiðslu,“ skrifar Haraldur í grein sinni, Það sem gerir okkur að þjóð.

Óli Björn leggur áherslu á að hugmyndin feli í sér að samþykki meirihluti Alþingis lagningu sæstrengs taki sú samþykkt ekki gildi nema meirihluti þjóðarinnar samþykki þá ákvörðun.

„Tillagan gengur út á það að hinn lagalegi fyrirvari sem settur er inn varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans svokallaða um það að sæstrengur verður ekki lagður nema meirihluti Alþingis samþykki slíka lagningu. Þá bætist við að meirihlutavilji Alþingis öðlist ekki gildi fyrr en í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að meirihluti þjóðarinnar samþykki ákvörðun meirihluta Alþingis.“

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.Vísir/Vilhelm
Óli Björn segir um að ræða nýja hugmynd. Hún hafi verið rædd innan flokksins og þar hafi verið tekið ágætlega í hana. Sjálfur segist Óli Björn afar jákvæður í garð hugmyndarinnar.

„Ágætlega. Ég er stuðningsmaður þessarar hugmyndar og held að hún sé hluti af því að ná meiri sátt um skipulag raforkumarkaðar og þeirrar samvinnu sem við eigum innan Evrópska efnahagssvæðisins,“ segir Óli Björn.

„Þetta er skynsamleg tillaga og öll grein Haraldar Benediktssonar ber þess merki að hafa verið skrifuð af mikilli þekkingu og eins og oftast áður, og nær alltaf, þá styð ég Harald Benediktsson í þessum hugmyndum.“

Flokkur fólksins lagði áður fram breytingartillögu við þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði fram. Breytingartillagan varðaði þann hluta þingsályktunarinnar er sneri að tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng. 

Flokkur fólksins lagði til að í ekki yrði ráðist í slíka tengingu nema með þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. í stað „samþykki Alþingis“ komi „samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Sú tillaga gerir þannig ekki ráð fyrir samþykki Alþingis, líkt og hugmynd Haraldar Benediktssonar gerir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×