Innlent

Ástand allra skólanna í borginni verði metið

Ari Brynjólfsson skrifar
Valgerður Sigurðardóttir segir sér hafa komið á óvart að sjá í fjölmiðlum að Fossvogsskóli væri verr farinn en fyrst var talið.
Valgerður Sigurðardóttir segir sér hafa komið á óvart að sjá í fjölmiðlum að Fossvogsskóli væri verr farinn en fyrst var talið. Fréttablaðið/Valli

„Það þarf að endurmeta ástand og viðhaldsþörf alls skólahúsnæðis sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ástandið er óviðunandi alltof víða. Þetta mun kosta gríðarlega fjármuni og því þarf að endurskoða fimm ára fjárhagsáætlun borgarinnar, enda ekki nokkur von til þess að hún muni standast,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði.

Dregið var úr viðhaldi á byggingum í eigu Reykjavíkurborgar á árunum eftir hrun. Í fyrra var fyrsta árið þar sem fjármunir fóru yfir viðmiðunarfjárhæð borgarinnar.

„Ég hef fengið gögn frá einum af fjármálastjórum borgarinnar sem sýna það svart á hvítu að óunnið en uppsafnað viðhald hjá Reykjavíkurborg var yfir fimm milljarðar árið 2017, þar af voru þrír milljarðar hjá Skóla- og frístundasviði. Þetta þýðir að þrír milljarðar hafa verið teknir af skólunum sem hefðu átt að fara í viðhaldskostnað en skiluðu sér ekki,“ segir Valgerður.

„Af framkvæmdu viðhaldi síðustu 10 ár hefur einn þriðji verið eignfærður sem hækkar stofnverð og þar með innri leigu um ókomin ár. Þetta er viðhald sem rétt væri að gjaldfæra en ekki eignfæra. Þetta er einfaldlega bókhaldsbrella til að reyna að fegra ástandið í viðhaldsmálunum.“

Valgerður segir að bætt hafi verið við viðhaldsfé en það hafi ekki komið til af góðu.

„Fossvogsskóli er nánast ónýtur. Miklar framkvæmdir standa yfir í Breiðholtsskóla vegna myglu. Seljaskóli er lokaður og þar verður ekki hægt að hefja kennslu í haust. Börn í Dal­skóla fá samlokur fram til jóla því þar vantar mötuneyti. Nýjast er að í Gufunesi þarf að fá fleiri gámaeiningar því aðstaðan er óviðunandi. Það þarf að bæta við viðhaldsfé af illri nauðsyn.“

Vill Valgerður að í stað þess að skólastjórnendur þurfi sjálfir að ganga á eftir skoðun verði farið í markvissa úttekt og sýnatöku í skólum og öðru húsnæði borgarinnar.

Valgerður segir að hún hafi misst traust á upplýsingagjöf borgarinnar.

„Við borgarfulltrúar lásum það í fréttum að staðan í Fossvogsskóla er mun verri en okkur var sagt. Það var nýbúið að kynna þetta fyrir okkur, þá var okkur sagt að allt væri í góðu og kennsla hæfist í haust. Þetta er í þriðja skiptið sem ég frétti það í fjölmiðlum að staðan er verri en á horfðist.“

Fær það hana til að spyrja sig hvað komi næst upp á yfirborðið. „Við vitum að frístundamiðstöðvar og leikskólar eru mjög víða í slæmu húsnæði. Það kæmi ekki á óvart að þessir fimm milljarðar í uppsöfnuðu viðhaldi séu bara toppurinn á ísjakanum. Ég vil bara fá að vita hvað vandinn er stór og ráðast í að laga það sem laga þarf, “ segir Valgerður Sigurðardóttir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.