Lífið

Kardashian að kenna að Jón Þór er orðinn þyrluflugmaður

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Þór í flugtíma með flugkennara sínum sem heitir David Tillsten.
Jón Þór í flugtíma með flugkennara sínum sem heitir David Tillsten.
Jón Þór Þorleifsson fyrrverandi rokkstjóri reif sig upp á gamals aldri, eins og hann segir sjálfur, og fór til Svíþjóðar til að læra á þyrlu. Hann hvetur alla til að elta drauma sína. Hann er nú alsæll og gegnir titlinum þyrluflugmaður. Kominn í draumastarfið.

Jón Þór er ekki síst þekktur fyrir að hafa verið rokkstjóri á hinni vinsælu rokkhátíð á Ísafirði, Aldrei fór ég suður, en hann hefur og er verið viðloðandi þá hátíð nánast frá upphafi. Hann hefur verið að starfa við kvikmyndagerð og segir Kardashian-fjölskylduna bera ábyrgð á því að hann tók sig upp, 43 ára að aldri, og hóf strembið og kostnaðarsamt flugnám. Hann segir reyndar flugmennskuna hafa verið í blóðinu.

„Pabbi minn var flugmaður, þetta er í blóðinu; ég hef alltaf haft gaman að fljúga. En, ástæðan fyrir því að ég fór út í þetta er sú að ég var að vinna við myndband hjá Kanye West og Kim Kardashian voru að gera hér á Íslandi. Þá fór ég í fyrsta skipti í þyrlu. Mér fannst það alveg klikkað, þetta heltók mig og ég sagði við sjálfan mig að þetta yrði ég að gera á hverjum degi. Já, þannig að það má segja að það sé Kardashian-fjölskyldunni að kenna að ég fór út í þetta.“

Strembið nám

Það var kvikmyndafyrirtækið Republik sem stóð að gerð myndbandsins í því sem snéri að Íslandi og Jón Þór var hluti af pródúsjónteyminu, eins og það heitir. En áður en hann vissi af var hann kominn til Svíþjóðar að læra á þyrlu. Og er nú útskrifaður.

Jón Þór jökulsvalur og sáttur við að fljúga þyrlu.
„Þetta er mjög gaman, mikill sigur að klára þetta. Ég var í rúmt eitt og hálft ár í Gautaborg að læra,“ segir Jón Þór sem var 43 ára gamall þegar hann fór út. Svo sem ekkert gamalmenni þó hann vilji meina að hann hafi lagt þetta fyrir sig á gamals aldri. En, námið var strembið.

„Já, bóklegi hlutinn var erfiðari en ég bjóst við. Þetta eru 14 fög sem við þurfum að taka. Erfiðara en ég bjóst við. Ég hefði hugsað mig tvisvar um ef ég hefði vitað hversu erfitt en ég var í bjartsýniskasti þegar ég tók ákvörðun um að fara í þetta,“ segir Jón Þór og sér ekki eftir því. Hann er alsæll.

„Já, og byrjaður að starfa við þetta. Farinn að vinna hjá þyrlufyrirtækinu Helo.is. Ég var heppinn að fá vinnu þar. Titlast nú markaðs- og sölustjóri. Ég þarf að taka sérstakt próf á þyrlurnar sem eru notaðar þar og fer í vetur í flugþjálfun og byrja að fljúga í kjölfarið af því.“

Eltið drauma ykkar gott fólk

Jón Þór segir þetta ávallt blundað í sér, fjarlægur draumur og hann getur ekki nógsamlega undirstrikað mikilvægi þess að fólk elti drauma sína.

„Þetta hljómar „kreisí“ að eyða miklum peningum og tíma í að læra að fljúga. Ég hef verið að reka hótel fyrir austan fjall, verið að vinna á veturna í Reykjavík en maður á bara að fylgja draumunum sínum og láta vaða. Vera óhræddur. Þó það hljómi klisjukennt og jafnvel klént. En þá uppsker maður. Ég er kominn með draumavinnuna. Á skólatölvunni minni sem ég var með úti, setti ég upp mynd, þyrlurnar hjá Heló, og hvert skipti sem ég opnaði tölvuna blöstu þær við.“

Einn þeirra sem kom og heimsótti Jón Þór þegar hann var í þyrluflugnámi sínu í Svíþjóð var félagi hans Guðni Finnsson bassaleikari og ljóst að það er gaman í háloftunum.
Jón Þór var kominn með tilboð um að starfa í þyrlubransanum í Noregi en þá fékk hann hringingu frá þeim í Helo.

En, draumarnir koma ekki fyrirhafnarlaust upp í fangið á fólki. Námið var erfitt og Jón Þór segir að það hafi runnið á sig tvær grímur þegar hann var, nánast áður en hann vissi, kominn til Svíþjóðar.

„Jájá, auðvitað er það mál að rífa sig upp 43 ára og setjast á skólabekk. Og fyrst sat ég bara og horfði á kennarann og skildi ekki orð. Las heima en skildi ekkert og spurði mig bara: Hvað er ég að gera hérna?“

Lítið sparifé eftir

En, Jón Þór náði fljótt að komast í takt við námið og Svíþjóð. Hann segist spurður um hvort þetta sé ekki dýrt nám hafa ákveðið að hann ætlaði aldrei að velta sér uppúr því sérstaklega né telja hvað þetta kostaði marga peninga.

Jón Þór er að upplifa drauminn. Hér má sjá þyrluna sem hann mun fljúga eftir að hafa öðlast sérstök réttindi á þessa tilteknu tegund. Þessa mynd tók Jón Þór á Hengilsvæðinu á mánudag.
„En, get þó sagt að ég var að borga rúmlega 50 þúsund fyrir hvern flugtíma en til að ljúka náminu þarf að fljúga 135 tíma. Svo kostar bóklega námið sitt líka, já og upphald en þetta er hverrar krónu virði. Leyfðu mér að orða það svo að það er lítið sparifé til í dag.“

Þegar rokkhátíðin mikla Aldrei fór ég suður berst í tal segist Jón Þór vera þar á hliðarlínunni en í þrjú ár var hann rokkstjóri. Hann var með strax frá ári 2. Þó hann sé ekki Vestfirðingur.

„Stjúpi minn er Vestfirðingur og fyrrverandi kærasti minn er Ísfirðingur líka. Ég hef ekki verið búsettur þar en verið þar mikið. Ég á sterkar tengingar þangað og við vinahópurinn áttum íbúð, eða heilsársbústað þar.“

Konan hjá Símaskránni neitaði að titla hann smala

Jón Þór hefur lengi verið kallaður og kallar sig smala, titlaðir sig svo í símaskrá. Sem víkur þá líklega fyrir þyrluflugmannstitlinum. Jón Þór segir að hann hafi þurft að hafa nokkuð fyrir því að fá sig skráðan sem slíkan, en það var titil sem hann tengdi fjölbreytilegu starfi sínu í kvikmyndagerðinni.

Séð út um flugskýlið í Svíþjóð. Eltið drauminn.
„Konan sem varð fyrir svörum hjá Símaskránni sagði að þetta væri enginn starfstitill. En, ég hélt það nú. Þetta væri einn elsti starfstitill á Íslandi, sennilega eldri en gleðikona.

Þá móðgaðist hún, misskildi mig og hélt að ég væri að kalla sig gleðikonu,“

segir Jón Þór. Við þetta hljóp kergja í málið þar til Jón Þór náði í annan þar sem þótti þetta svo fyndið að hann fékk umsvifalaust að titla sig smala. „Fyrirtækið mitt heitir Smalinn og synir. Sem mér þótti fyndið í ljósi þess að ég er samkynhneigður og líklega verða þeir ekki margir synirnir.“

 

Segir alla verða að prófa að fljúga með þyrlu

En, nú er það þyrlan og draumastarfið. Jón Þór segir að það sem hann taki fyrst og  tek út úr þessu er við eigum aldrei að efast um sjálf okkur og láta drauma okkar rætast. Hann segir þyrlustarfsemina fjölþætta. Að mestu snýst þetta um að fljúga með farþega, erlenda ferðamenn. En þyrlurnar eru einnig vinnujálkar sem notaðar eru til að hífa hitt og þetta oft við erfiðar aðstæður.

„Helo var til dæmis með þyrlur sínar í að hífa niður flugvél sem brotlenti á Látrabjargi.“

Það er vissulega ekki ódýrt að fljúga með þyrlu en Jón Þór segir að það sé hægt að vera með sex farþega og í því samhengi, deilt í sex, þá sé þetta ekkert brjálæðislega dýrt.

„Ég mæli eindregið með því að prófa. Þetta er eitthvað sem allir verða að upplifa. Og allt öðru vísi en fara með farþegaflugvél. Þú sérð borgina þína og nágrenni í allt öðru ljósi. Færð aðra mynd af umhverfi þínu. Mér finnst það óendanlega gaman. Það eru forréttindi að fljúga með Heló um þetta land.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×