Innlent

Segir börnin sýna ein­kenni á­falla­streitu­röskunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Zainab með móður sinni Shahnaz og Amir yngri bróður sínum.
Zainab með móður sinni Shahnaz og Amir yngri bróður sínum. Vísir/Arnar
Lögmaður tveggja afganskra fjölskyldna sem vísa átti úr landi til Grikklands mun skila inn þriðju endurupptökubeiðninni í máli annarrar fjölskyldunnar í dag. Beiðnin er byggð á því að andlegri heilsu barnanna, Zainab og Amar Safari, hafi hrakað verulega. Þá segir lögmaðurinn að börnin úr báðum fjölskyldum eigi það sameiginlegt að sýna merki áfallastreituröskunar.

Annars vegar er um að ræða Sarwari-feðgana, föðurinn Asadullah og syni hans, en brottvísun þeirra var frestað á sunnudag vegna mikils kvíða annars drengsins. Fyrir liggur endurupptökubeiðni í máli þeirra frá 1. júlí sem byggir á breyttum heilsufarsástæðum barnanna. Von er á nýju vottorði í málinu í dag.

Hins vegar er um að ræða Safari-fjölskylduna, Zainab, nemanda við Hagaskóla, bróður hennar Amir og móður hennar, Shanhaz. Lögð verður fram endurupptökubeiðni í máli þeirra, þá þriðju síðan þau komu hingað til lands, í dag. Beiðnin er einnig byggð á því að heilsu barnanna hafi hrakað verulega en Safari-systkinin fóru bæði til geðlæknis í gær.

Magnús Davíð Norðdahl lögmaður fjölskyldnanna segir öll börnin þjást af mikilli vanlíðan.

„Það sem er sammerkt hjá öllum þessum börnum er að þau þjást af kvíða og þunglyndi. Það eru til staðar einkenni áfallastreituröskunar og þeim líður öllum alveg gríðarlega illa í þessum aðstæðum.“

Feðgarnir Ali, Asadullah og Madhi Sarwari.VÍSIR/BALDUR
Magnús bendir jafnframt á að í ágúst verður liðið eitt ár frá því að Sarwari-feðgarnir komu hingað til lands og september markar ár frá komu Safari-fjölskyldunnar.

„Þetta eru börn sem hafa náð að skjóta hér rótum, mynda hér sterk tengsl við aðra sem hér búa og það er auðvitað þyngra en tárum taki að þessi börn þurfi að búa við þessa óvissu og þá tilhugsun að verða mögulega flutt úr landi úr þessum aðstæðum sem þau hafa kynnst hér. Þeim líður vel hér.“

Magnús leyfir sér að vera bjartsýnn á að fallist verði á endurupptöku, með hliðsjón af því hversu alvarleg veikindi barnanna eru. Hann segir að afgreiðsla beiðnanna gæti tekið einhverjar vikur en ekki sé ljóst hvort fjölskyldurnar fái að vera hér á landi á meðan beðið er eftir niðurstöðu.

„Á þessu stigi, akkúrat núna, er bara ekkert öruggt hvað það varðar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×