Innlent

Bandaríkjaher ætlar í milljarðaframkvæmdir á Íslandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þannig sé markmiðið að hægt sé að taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum á flugvellinum.
Þannig sé markmiðið að hægt sé að taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum á flugvellinum. Vísir/Getty
Bandaríkjaher áformar að sjö milljarða króna mannvirkjauppbyggingu á Keflavíkurflugvelli á næsta ári, að því er fram kemur í fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir árið 2020. RÚV fjallaði um málið í kvöldfréttum sínum í kvöld.

Í fjárhagsáætlun hersins kemur fram að 57 milljónum Bandaríkjadala, eða um sjö milljörðum íslenskra króna, verði varið til framkvæmda á flugvellinum. Þar af fara átján milljónir dala í uppbyggingu á svæði til meðhöndlunar á hættulegum farmi, svo sem vopnabúnaðar, 32 milljónum dala verður varið í stækkun flughlaðs fyrir herinn og sjö milljónum í uppbyggingu á færanlegri aðstöðu fyrir herlið.

Þannig sé markmiðið að hægt sé að taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum, sem telja allt að 24 orrustuflugvélar hver, hvenær sem þörf er á, að því er fram kemur í frétt RÚV.

Í gær samþykkti Alþingi að 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar yrðu færðar í viðhald mannvirkja NATO á Keflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×