Innlent

Ákæra fyrir grófa hótun

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Bensínbrúsa var kastað að húsi.
Bensínbrúsa var kastað að húsi. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa fyrir tæpu ári kastað brúsa með bensíni að íbúðarhúsi í Reykjavík til að valda konu, starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins, ótta og með því reyna að neyða hana til að leiðrétta og endurgreiða bótagreiðslur til hans.

Í ákærunni kemur fram að fyrr þann sama dag hafði maðurinn hótað ótilgreindum starfsmönnum stofnunarinnar líkamsmeiðingum.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir valdstjórnarbrot vegna tveggja tölvupósta sem hann sendi á vinnunetfang sama nafngreinda starfsmanns Tryggingastofnunar í febrúar síðastliðnum. Í fyrri póstinum var orðsending til starfsmannsins um að hann þyrfti að heimsækja fjölskyldu hennar aftur auk óljósrar hótunar um að siga nafngreindum alþingismanni á hana í því skyni að nauðga henni.

Í síðari póstinum sem sendur var degi síðar segir maðurinn að konan og dætur hennar eigi skilið að vera stungnar með skítugri sprautunál. Hann hati þær og viti hvar þær búi.

Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni og vopnalögum en við húsleit fundust 10 haglaskot í náttborði mannsins, sem hefur ekki skotvopnaleyfi.

Ákæran er gefin út af héraðssaksóknara.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×