Lífið

Kevin Costner afhjúpar 27 ára gamalt leyndarmál á bak við hið fræga Bodyguard-plakat

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Plakatið fræga.
Plakatið fræga.
Plakatið sem fylgdi rómantísku spennumyndinni Bodyguard frá árinu 1992 er þekktasta kvikmyndaplakat sögunnar. Flestir héldu að þar mætti sjá Kevin Costner halda á Whitney Houston en Costner leiðrétti þann misskilning á dögunum.

Hin gríðarvinsæla kvikmynd sló í gegn þegar hún kom út og á plakatinu fyrir myndina má sjá Costner, sem lék lífvörðinn Frank Farmer, halda á poppstjörnunni Rachel Marron, út af næturklúbbi þar sem hún var að skemmta en óeirðir brutust út. Plakatið þykir ná að festa á mynd kjarna kvikmyndarinnar.

Í viðtali við Entertainment Weekly afhjúpaði Costner hins vegar 27 ára gamalt leyndarmál. Hann hélt ekki á Whitney Houston á ljósmyndinni.

„Hún var farin heim og þetta var staðgengill hennar. Andlit hennar var falið á bak við mig, sem passaði svo sem alveg,“ sagði Costner. Líklega er um að ræða leikkonuna Joyce Larkin sem lék áhættuatriði fyrir Houston í myndinni.

Þá sagðist Costner einnig hafa þurft að berjast fyrir því að þessi mynd væri notuð, en framleiðendur myndarinnar töldu það vera heppilegra ef það sæist í andlit Houston á plakatinu.

„Þeir voru ekki hrifnir af myndinni vegna þess að það sást ekki í andlitið á Whitney. Þeir sendu örugglega fimm aðrar útgáfur til mín þar sem búið var að setja andlitið hennar á myndina. Ég sagði, strákar. Við vorum með þetta með fyrstu myndinni.“

Costner og Houston náðu afar vel saman við gerð myndarinnar og var Costner einn af þeim sem ávarpaði jarðarfarargesti við útför Houston árið 2012.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.