Innlent

Hitinn gæti farið í 22 stig

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitaspá Veðurstofunnar fyrir morgundaginn klukkan 15. Spáð er um og yfir 20 stiga hita á austanverðu landinu.
Hitaspá Veðurstofunnar fyrir morgundaginn klukkan 15. Spáð er um og yfir 20 stiga hita á austanverðu landinu. veðurstofa íslands
Það verður ekki mjög sólríkt sunnan og vestan til á landinu næstu daga. Sólin mun aftur á móti láta sjá sig austan lands og þar gæti hitinn farið í 22 stig að því er fram kemur í veðurspá á vef Veðurstofu Íslands.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að í dag verði fremur hæg suðvestanátt, að mestu skýjað og þurrt. Hitinn á bilinu 9 til 15 stig en víða bjart austan til á landinu þar sem hitinn gæti náð 22 stigum.

Það verður svo áfram suðvestanátt næstu daga með svipuðum hitatölum og skýjafari þótt heldur muni bæta í vind á morgun með dálítilli vætu um vestanvert landið.

„Það safnast tæplega margar sólskinsstundir í sarpinn næstu daga, en þrátt fyrir þungbúið veður er uppsafnaða úrkomumagnið heldur ekki mikið. Annað er þó uppi á tengingum um austan til á landinu þar sem er útlit fyrir þurrt, bjart og hlýtt veður,“ segir í hugleiðingunum.

Veðurhorfur á landinu:

Suðvestan 3-10 m/s. Skýjað og úrkomulítið, en bjartviðri austan til á landinu. Suðvestan 8-15 á morgun, hvassast um landið norðvestan vert. Skýjað og dálítil væta, en áfram þurrt austanlands. Hiti 9 til 20 stig, hlýjast austan til.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Vestan 8-15 m/s, en hægari vindur austast á landinu. Dálítil væta af og til vestan til á landinu, en léttskýjað á austur helmingi landsins. Hiti 8 til 22 stig, svalast vestast en hlýjast á Suðausturlandi.

Á fimmtudag:

Suðvestan 5-10 m/s og dálítíl rigning, en áfram þurrt og bjart austan

til á landinu. Hiti 10 til 21 stig, hlýjast austan til.

Á föstudag:

Sunnan 5-10 og víða rigning, en úrkomulítið norðaustan til. Hiti 10 til 16 stig.

Á laugardag:

Útlit fyrir austlæga átt og dálitla vætu um land allt. Hiti 11 til 16 stig.

Á sunnudag:

Líkur á norðlægri átt og rigningu norðan til en skúrum syðra. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×