Innlent

Málið snúist ekki um hvað Þórhildur sagði heldur hvernig hún sagði það

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna hefur sagt að álit siðanefndar sé rangt og röksemdarfærslan bæði ófullnægjandi og röng hvað varðar efni og aðferðarfræði.
Þórhildur Sunna hefur sagt að álit siðanefndar sé rangt og röksemdarfærslan bæði ófullnægjandi og röng hvað varðar efni og aðferðarfræði. FBL/Ernir

„Siðareglur fyrir alþingismenn gera ekki ráð fyrir því að forsætisnefnd fari með úrskurðarvald um sannleiksgildi ummæla sem til skoðunar eru samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.“

Þetta kemur fram í áliti forsætisnefndar Alþingis sem hefur fallist á álit siðanefndar sem komst að þeirri niðurstöðu að með því að hafa meðal annars sagt að rökstuddur grunur væri uppi um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði dregið sér fé hefði Þórhildur Sunna brotið í bága við a- og c- lið 1. mgr. 5 gr. meginreglna um hátterni og hátternisskyldu 7. gr. siðareglna fyrir alþingismenn.

Forsætisnefnd Alþingis sem hefur að undanförnu haft til umfjöllunar erindi Ásmundar, um meint brot þingmanna Pírata, þeirra Björns Levís Gunnarssonar og Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, hefur lokið meðferð sinni á málinu og birt álit sitt á vef Alþingis. Þórhildur Sunna baðst undan viðtali í bili vegna anna í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins sem hún leiðir. Hún hyggst gefa út yfirlýsingu vegna álits nefndarinnar á næstunni.

Sjá nánar: Álit forsætisnefndar Alþingis

Segir ummæli sín hafa verið þau sömu og Þórhildar að inntaki

Forsætisnefnd staðfesti einnig álit siðanefndarinnar um að ummæli Björns Levís væru ekki ósamrýmanleg umræddri grein siðareglna fyrir alþingismenn. Björn hefur áður látið í ljós furðu sína á þessum úrskurði og sjálfur sagt að ummæli sín hefðu verið þau sömu og Þórhildar Sunnu að inntaki.

Sjá nánar: „Nú er rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hafi dregið sér fé“

„Vissulega notaði ég ekki nákvæmlega sömu orðin og það getur vel verið að það skipti máli þegar siðanefnd leggur mat sitt á merkingu orðanna,“ sagði Björn í pontu Alþingis í maí síðastliðnum eftir að siðanefnd hafði gefið ráðgefandi álit sitt í málinu. Björn vildi í sömu ræðu taka af allan vafa um inntak orða sinna og sagði:

„Nú er rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn í þeim efnum. Ég segi þessi orð með fullri vitneskju um að þau hafi verið dæmd sem brot gagnvart siðareglum þingmanna.“

Í áliti forsætisnefndar segir að skilyrði standi ekki til þess að verða við ósk Þórhildar Sunnu um að málið verði á ný lagt fyrir siðanefnd.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur sjálfur sagt að inntak orða sinna hefði verið hið sama og hjá Þórhildi. visir/vilhelm

Vildi að ummæli sín yrðu skoðuð út frá sannleiksgildi þeirra

Í athugasemd sem Þórhildur Sunna sendi nefndinni 20. maí kemur fram að hún telji niðurstöðu siðanefndar ranga og að röksemdarfærslan fyrir henni sé bæði ófullnægjandi og röng hvað varðar efni og aðferðarfræði.

Þá gerir hún auk þess sérstaka athugasemd við ummæli í bréfi forseta Alþingis 2. apríl 2019 um að „siðareglurnar og málsmeðferðarreglur [geri] ekki ráð fyrir því að forsætisnefnd fjalli um eða skeri úr um sannleiksgildi þeirra ummæla sem eftir eru höfð.“

Þingmenn Pírata hafa látið í ljós áhyggjur sínar af þeim áhrifum sem gætu hlotist af áliti siðanefndar og forsætisnefndar. Stjórnarandstaða í lýðræðissamfélagi hafi mikilvægu aðhaldshlutverki að gegna og hún verði að geta haft í frammi gagnrýni út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir í hverju máli fyrir sig.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og fulltrúi í forsætisnefnd, segir í samtali við fréttastofu að vegið sé að tjáningarfrelsi þingmanna með álitinu og tilgangi siðareglna snúið á haus. Þær hafi verið settar á að frumkvæði alþjóðlegra samtaka sem berjast gegn spillingu með það að markmiði að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og koma í veg fyrir að ráðamenn geti misnotað sjóði almennings.

Sjá nánar: „Erum komin á mjög hættulegan stað sem réttarríki þegar það er siðabrot að segja sannleikann“

„Ég get ekki lesið þessi skilaboð á neinn annan hátt en að núna þarf ég, sem þingmaður, að fara bara mjög varlega með það hvað ég segi um mögulega spillingu því annars gæti ég fengið á mig úrskurð um að ég sé brotlegur við siðareglur. Þetta gerir ekkert annað en að styrkja samtrygginguna í stjórnmálum,“

Álit meirihluta forsætisnefndar var birt á vef Alþingis ásamt fylgiskjölum málsins.

Ekki skoðað út frá sannleiksgildi ummæla heldur út frá „siðferðislegum verðmætum“

Í álitinu segir að siðareglur fyrir alþingismenn geri ekki ráð fyrir því að forsætisnefnd fari með úrskurðarvald um sannleiksgildi ummæla sem til skoðunar eru samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.

Í áliti forsætisnefndar segir að leggja beri sérstaka áherslu að í málinu séu ummæli Þórhildar til skoðunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn en ekki á grundvelli þess hvort Ásmundur hefði farið á svig við reglur um endurgreiðslu aksturskostnaðar.

„Af siðareglunum leiðir að það getur haft þýðingu hvernig tjáningu er komið á framfæri og við hvaða aðstæður. Þær skorður sem kunna að leiða af siðareglum fyrir alþingismenn lúta þá ekki að efni tjáningar heldur að ytri búningi hennar, t.a.m. háttvísi þeirra og ummæli á opinberum vettvangi, skuli samræmast þeim siðferðislegu viðmiðum sem fram koma í siðareglum fyrir alþingismenn.“

Þá segir jafnframt í álitinu að siðareglurnar hafi m.a. þann tilgang að efla ábyrgðarskyldu alþingismanna og tiltrú og traust almennings á Alþingi.

„Siðareglunum er ætlað að standa vörð um þessi siðferðilegu verðmæti og hvetja þingmenn til góðra verka. Á þessum grundvelli er í siðareglunum settar fram meginreglur um hátterni og hátternisskyldur alþingismanna“


Tengdar fréttir

Álit um brot Þórhildar Sunnu staðfest

Forsætisnefnd hefur fallist á álit siðanefndar Alþingis í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttir, þingmanns Pírata, og telur hana brotlega við siðareglur fyrir alþingismenn vegna ummæla um Ásmund Friðriksson. Þrír nefndarmenn eru með sérbókun vegna álitsins.

Formaður Samfylkingarinnar telur fyrirkomulag Alþingis um siðamál ótækt

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur fyrirkomulag Alþingis um siðamál vera ótækt. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata segir álit siðanefndar þingsins, um að hún hafi brotið siðareglur með ummælum sínum um akstursgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar, vera súrrealískt og kaldhæðnislegt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.