Leikmenn tyrkneska landsliðsins kvörtuðu yfir öryggisleit og vegabréfaeftirlit þegar þeir komu til Keflavíkurflugvallar í gær en framherji liðsins, Burak Tilmaz, sagði við fjölmiðla að hann og liðsfélagar hans hefðu þurft að bíða í rúma þrjá tíma þar sem leitað var í farangri þeirra oft og ítarlega.
Ekki bætti úr skák þegar óþekktur maður blandaði sér í hóp fjölmiðlamanna sem biðu eftir tyrknesku landsliðsmönnunum og rak þvottabursta framan í landsliðsfyrirliðann og þóttist taka viðtal við hann.
Utanríkisráðherra Tyrkja, Mevlüt Çavuşoğlu, sagði þessa meðferð á tyrkneska liðinu óásættanlega.

Tyrkneska landsliðið flaug frá tyrknesku borginni Konya til Íslands en flugvöllurinn þar er óvottaður og því þurfti tyrkenska liðið að fara í gegnum sérstaka öryggisleit á Íslandi. Víðir sagði íslenska liðið hafa þurft að fara í gegnum sömu öryggisleit þegar það kom frá Tyrklandi fyrir tveimur árum.
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir sendiherra Tyrklands gagnvart Íslandi í Osló hafa sent utanríkisráðuneytinu formlegt erindi þar sem kvartað er undan þessari framkomu. Sveinn segir erindið til skoðunar hjá ráðuneytinu.

Víðir Reynisson sagði við Vísi í morgun að hann eigi fund með tyrkneska knattspyrnusambandinu í dag vegna leiksins á morgun en fyrir fundinn hafði tyrkneska sambandið ekki lagt fram óskir um aukna öryggisgæslu á leiknum.
200 tyrkneskir stuðningsmenn eru væntanlegir á leikinn, sem er svipaður fjöldi og síðast þegar Tyrkir léku á Laugardalsvelli, en Víðir sagði að gæslan yrði með sama hætti og þegar Albanir léku við Íslendinga á laugardag.