Innlent

Fólk tilkynni falsauglýsingar á samfélagsmiðlum

Kjartan Kjartansson skrifar
Dæmi um falsaða frétt sem notuð er til að gabba fólk til að greiða svikahröppum peninga.
Dæmi um falsaða frétt sem notuð er til að gabba fólk til að greiða svikahröppum peninga. Vísir/EPA
Yfirmaður netafbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að tilkynna falsauglýsingar á samfélagsmiðlum til að hjálpa til við að uppræta þær. Augljóst sé að svikahrappar sem standa að auglýsingunum hafi fylgst vel með löndum sem þeir herja á.Töluvert hefur borið á falsauglýsingum á samfélagsmiðlum eins og Facebook fyrir undraleiðir til að ná skjótum gróða. Andlit þekktra íslenskra athafnamanna hafa verið misnotuð í auglýsingum sem þessum. Í sumum tilfellum eru auglýsingarnar látnar líta út eins og fréttir íslenskra fjölmiðla eins og Vísis.Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sagði Daði Gunnarsson, yfirmaður netafbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að mikilvægt væri að fólk læsi vel auglýsingarnar ef það smellti á þær. Oft væru þær augljóslega þýddar með sjálfvirkum þýðingarvélum eins og Google Translate. Þannig væri algengt að einstaka orð væru ekki einu sinni þýdd heldur stæðu á ensku.Ráðlagði Daði fólki að tilkynna auglýsingar af þessu tagi sem svik í hvert skipti sem þær sjáist.„Hver einasta tilkynning gildir. Við biðlum til fólks að tilkynna þær og aðstoða okkur þá við að losna við þetta,“ sagði hann.Erfitt getur þó reynst að koma lögum yfir svikahrappana. Daði segir að oft stofni þeir fyrirtæki á einum stað en peningarnar sem þeir hafa af fólki fari annað. Þá færi þeir peningana ört til að gera löggæsluyfirvöldum erfiðara fyrir að rekja slóðina.Svikahrapparnir séu atvinnumenn í sínu fagi. Augljóst sé að þeir fylgist með því sem er að gerast í löndunum sem þeir herja á hverju sinni. Oft tengist Ísland Norðurlöndunum í svikamálum sem þessu. Þannig verði löndin fyrir barðinu á sömu svikaherferðunum á sama tíma.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.