Innlent

Spá yfir 20 stiga hita í dag

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir að þokunni létti víðast hvar þegar líður á morguninn.
Gert er ráð fyrir að þokunni létti víðast hvar þegar líður á morguninn. Vísir/Vilhelm

Þoka hefur verið viðloðandi landið í nótt en búast má við að henni létti víðast hvar þegar líður á morguninn.

Í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings kemur fram að líklegt sé að hitastig fari yfir 20 gráður í innsveitum á Vesturlandi og uppsveitum Suðurlands í dag.

Austantil er þó áfram nokkuð skýjað og heldur svalara í veðri.

Ekki er útlit fyrir úrkomu á vestanverðu landinu næstu daga og því áfram brýnt að fara varlega með eld vegna hættu á gróðureldum.

Enn er mikið hæðarsvæði á milli Íslands og Grænlands.

Hlýjast á Suðurlandi

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðlægri átt, 5-13, hvassast á annesjum austanlands en snýst smám saman í suðaustlæga átt 5-10. Í veðurspá fyrir daginn í dag segir að þokuloft verði víða á Vesturlandi í fyrstu en annars skýjað með köflum eða bjartviðri en dálítil súld eða rigning norðan og austanlands. Hiti 7 til 14 stig norðaustantil en annars 14-23 stig og hlýjast á Suðurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:
 

Á föstudag:

Norðaustan 5-10 m/s, en 10-15 suðaustantil á landinu. Bjart með köflum, en skýjað austanlands. Hiti frá 7 stigum með austurströndinni, en allt að 20 stig í uppsveitum á Suður- og Vesturlandi.
 

Á laugardag:

Austan 5-10 m/s. Dálítil rigning suðaustanlands. Bjart með köflum á vesturhelmingi landsins, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti frá 8 stigum austast, upp í 19 stig á Vesturlandi.
 

Á sunnudag:

Hæg austlæg átt og víða skýjað, en bjart veður suðvestantil á landinu. Hiti 12 til 18 stig, en svalara austanlands og á annesjum fyrir norðan.
 

Á mánudag (lýðveldisdagurinn):

Norðan 3-8 og dálítil rigning með köflum, en léttskýjað vestantil á landinu. Hiti 10 til 18 stig yfir daginn.
 

Á þriðjudag og miðvikudag:

Útlit fyrir austlæg átt og dálitil rigning með köflum, en yfirleitt þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.