Innlent

Gróðureldar verði ein sviðsmynd almannavarna

Sighvatur Jónsson skrifar

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segir meiri líkur en áður á stórum gróðureldum á Íslandi vegna loftslagsbreytinga og nýs gróðurfars. Stofnunin hefur lagt til við dómsmálaráðuneytið að gróðureldum verði bætt við sviðsmyndir almannavarna.



Vegna mikilla þurrka hefur verið lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Sérstaklega er horft til fjölmennra sumarhúsabyggða eins og í Skorradal og Grímsnesi.



Oddviti Skorradalshrepps sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að sveitarfélög þurfi að endurskoða fjárframlög til slökkviliða í ljósi aðstæðna. Til greina komi að hreppurinn fjárfesti í svokallaðri vatnsskjólu.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar.Vísir/Sigurjón

Sveitarfélög meti áhættuna

Landhelgisgæslan er með eina slíka skjólu sem hefur verið notuð við æfingar hér á landi. Algengt er að nota þyrlur og flugvélar með slíkum búnaði í baráttu við skógarelda.



„Sveitarfélögin bera ábyrgð á framkvæmd mála. Þau eru með slökkviliðsstjóra, reka slökkvilið og kaupa búnað fyrir slökkviliðin. Þau verða sjálf að meta sína áhættu hvert fyrir sig,“ segir Björn forstjóri Mannvirkjastofnunar.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.Vísir/Sigurjón

Ábyrgð fólks mikil

Viðbragðsáætlanir og áhættumöt hafa verið útbúin. Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, minnir á að fólk ber mikla ábyrgð.



„Er ég reykingamaður? Kasta ég sígarettunni frá mér í kæruleysi? Nota ég kolagrill eða einnota grill? Er ég að brenna rusli? Sem er algjörlega ólíðandi í svona veðurfari. Ábyrgð okkar sem einstaklinga er mjög mikil. Hver á annar að passa okkur en við sjálf?“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×