Innlent

Áfram góðviðri næstu daga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Áhugafólk um útivist og almennt góðviðri víða um land lifir mikla gósentíð þessa dagana.
Áhugafólk um útivist og almennt góðviðri víða um land lifir mikla gósentíð þessa dagana. Vísir/Vilhelm
Í dag má gera ráð fyrir svipuðu veðri og hefur verið síðustu daga. Veðurfræðingar merkja engar stórvægilegar breytingar á veðrinu á næstu dögum.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands, sem sjá má á vef Veðurstofunnar, segir:

„Heldur léttir til norðaustantil í kvöld og á morgun en áfram er útlit fyrir að hlýjast verði í innsveitum sunnan og vestanlands, þar sem hiti gæti farið yfir 20 gráður. Á morgun lægir talsvert, og í kjölfarið getur hafgolan látið til sín taka, en þokuloft yfir landi virðist þó bundið við næturlag. Eftir helgi er útlit fyrir skúri eða rigningu á sunnanverðu landinu, eftir langvarandi þurrka þar en enn er ekki spáð neinni úrkomu að ráði á vestanverðu landinu.“

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi á Vesturlandi vegna hættu á gróðureldum. Litlar líkur eru taldar á úrkomu þar næstu vikuna eða svo. Því er brýnt fyrir fólki að fara afar varlega með eld á svæðinu.

Veðurhorfur næstu daga:

Laugardagur

Austan 5-10 m/s. Skýjað með köflum norðan og vestanlands og líkur á stöku síðdegisskúrum á vestanverðu landinu en dálítil rigning suðaustanlands og á Austfjörðum. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast SV-til en svalara á annesjum austanlands.

Sunnudagur

Hæg austlæg átt. Skýjað með köflum og þurrt á austanverðu landinu en léttskýjað vestantil. Hiti 12 til 18 stig, en svalara á annesjum austanlands og með norðurströndinni.

Mánudagur (17. júní)

Norðaustlæg átt, 3-8 m/s. Skýjað og allvíða dálítil væta en áfram þurrt á Vesturlandi og norðvestantil. Hiti 8 til 18 stig yfir daginn, hlýjast vestanlands.

Þriðjudagur

Fremur hæg norðaustlæg átt, skýjað víðast hvar og rigning eða skúrir sunnan jökla. Kólnar lítið eitt.

Miðvikudagur

Útlit fyrir hæga norðaustlæga átt og þurrviðri um allt land. Hiti 8 til 15 stig.

Fimmtudagur

Útlit fyrir hæga breytileg átt, þurrviðri og heldur hlýnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.