Lífið

Lýðháskólinn á Flateyri vill ekki líkjast bóknámsskólum

Hressir nemendur við Lýðháskólann á Flateyri.
Hressir nemendur við Lýðháskólann á Flateyri. Eyþór Jóvinson

Fyrsta námsári Lýðháskólans á Flateyri lauk nú í vor en skólinn var stofnaður sem svar við eftirspurn á fjölbreyttara námi. Anna Sigríður Sigurðardóttir kennslustjóri segir fyrsta starfsár skólans hafa gengið vonum framar. „Við fórum af stað í eitthvað sem hafði aldrei verið gert áður þannig að það var í senn tilraunakennt og viðburðaríkt.“

Í skólanum er ekki hefðbundin kennsluskrá en val er um tvær námsbrautir, annars vegar Hafið, fjöllin og þú og hins vegar Hugmyndir, heimurinn og þú. Brautirnar hafa það að leiðarljósi að hafa nemendur í forgrunni en í skólanum eru hvorki gefnar einkunnir né lögð fyrir próf. „Okkar skóli gengur út á að gera og kynnast hlutunum með því að framkvæma þá,“ en Anna lýsir skólastarfinu sem upplifunarnámi. Námskeið í skólanum eru kennd í tveggja vikna lotum en það fyrirkomulag skapar aukin tækifæri til að fá fagaðila og reynslubolta til liðs við skólann.

Skólinn leggur mikið upp út samtölum og samvinnu nemenda og kennara.

Anna taldi mikinn lærdóm vera fólginn í því að vinna með þeim fjölbreytta nemendahópi sem sótti skólann á síðasta námsári. „Það kom mér mest á óvart hvað við fengum frábæra nemendur og hversu opnir og tilbúnir þeir voru í alls konar verkefni.“ Anna lýsir starfshópi lýðháskólans sem fyrsta flokks og segir það hafa verið dýrmætt að fá fólk sem var tilbúið að fara út í óvissuna. „Við vorum með frábæra kennara sem voru mjög jákvæðir og allir meðvitaðir um að þetta yrði tilraunakennt fyrsta ár.“ En hún tekur fram að nánast allir kennaranna ætli að halda áfram í skólanum næsta vetur.

Anna segir fyrsta starfsárið hafa sannað að Flateyri, sem er 160 manna sjávarþorp, sé kjörinn staður fyrir lýðháskóla. „Bærinn tók skólanum ótrúlega vel og Flateyringar eru einstaklega jákvæðir í garð skólans og nemenda hans.“ Þá segir hún að heimamenn hafi verið duglegir að sækja viðburði nemenda og þá sérstaklega þegar haldið var bingókvöld sem stjórnað var af bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar.

Anna vill einnig koma því á framfæri að nemendur hafi verið sammála um að mjög gott væri að búa á Flateyri en í könnun sem gerð var af skólanum hafi enginn merkt við frekar gott eða ekki nógu gott. Sú staðreynd sannast enn fremur á því að átta nemendur ætli að vera áfram í bænum yfir sumarið, ýmist að vinna í sjoppu, sundlaug, við póstburð eða annað. Önnu finnst líklegt að það hafi komið nemendunum sjálfum mest á óvart hvað þeim líkaði sveitasælan vel. „Sum þeirra höfðu varla komið út fyrir Reykjavík og lítið ferðast um landið en svo eru þau komin hingað lengst út í rassgat til að vera yfir veturinn og ekkert að gera.“ En Anna tekur undir að þorpsandinn sé yndislegur á Flateyri og að hana langi ekkert heim eftir árs dvöl.

Anna hvetur þá sem til eru í ævintýri og fjölbreytt nám að sækja um inngöngu fyrir næsta ár. „Nemendur mega búast við skemmtilegu námi með úrvals kennurum á dásamlegum stað.“ Hún telur lýðháskóla góðan valkost fyrir þá sem finna sig ekki í hefðbundnu bóknámi. „Við viljum ekki líkjast bóknámsskóla og erum því ekki í neinum samanburði við þá.“ Anna býður þá sem vilja takast á við nýja hluti í bæði námi og lífi velkomna, en umsóknarfrestur við Lýðháskólann á Flateyri rennur út 15. júní.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.