Fyrsta skrúðaganga dagsins var farin frá Austurvelli um hádegi og að leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallakirkjugarði þar sem forseti borgarstjórnar lagði blómsveig við hátíðalega athöfn.
Hátt í sjötíu þrettán til sextán ára ungmenni sem setið höfðu við hátíðarhöldin á Austurvelli héldu þingfund á Alþingi að þeim loknum. Þau fluttu margar eldræður þar sem jafnrétti, umhverfismál heilbrigðismál og málefni fatlaðra var þeim ofarlega í huga og afhentu síðan forsætisráðherra ályktun.
„Við vonum innilega að Alþingi taki mark á tillögum okkar,“ sagði Dagný Erla Gunnarsdóttir sem tók þátt í ungmennaþinginu.
Í sama streng tók Magnús Árni Pétursson sem var einnig fulltrúi en hann sagði að ungmennin hefðu verið margar vikur að undirbúa sig fyrir fundinn í dag.
Guðmundur Birgir Halldórsson viðburðastjóri og kynnir hátíðarinnar var afar ánægður með daginn og sagði að hátíðin í ár væri ein sú fjölmennasta síðustu ár. Þá var hann afar ánægður með veðurblíðuna sem lék við borgarbúa.
„Við gerðum rannsókn á veðurfari á 17. júní fyrir þessi hátíðarhöld og þar kom í ljós að í um 85% tilvika hefur rignt á þessum degi síðustu 75 ár. Það er því alveg frábært að sjá hvað veðrið er gott í dag,“ sagði Guðmundur.
Víða mátti sjá konur í fallegum þjóðbúningum í dag. Klara Rún Hilmarsdóttir var ein þeirra en hún sagðist vonast til að sjá fleiri konur í þjóðbúningi. Hún notaði sinn eins oft og tækifæri gæfust til.
Borgarbúum var einnig boðið að smakka á 75 metra langri lýðveldisköku á Sóleyjargötu sem kvenfélagasambandskonur tóku þátt í að skera. Kakan kláraðist fljótlega en það var Landssamband bakarameistara sem stóð fyrir bakstrinum. Jóhannes Felixson formaður sambandsins sagði að mörg önnur sveitarfélög byðu uppá slíka köku í tilefni dagsins. Flest bakarí á höfuðborgarsvæðinu hefðu tekið þátt í að baka þessa köku.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fengu fyrstu sneiðarnar og voru afar ánægð með bragðið aðallega hvað það var mikill marsípan á kökunni. Skemmtidagskrá stóð til klukkan fimm og var vegleg eins og víða um land. Sumir missa nánast aldrei af dagskránni.