Innlent

Rigning eða slydda norðan og austan til en sólskin syðra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Höfuðborgarbúar hafa notið veðurblíðu undanfarið.
Höfuðborgarbúar hafa notið veðurblíðu undanfarið. vísir/vilhelm

Það má segja að gæðunum í veðrinu sé misskipt þessa dagana þar sem sólin leikur við íbúa sunnan og vestan til á landinu en fyrir norðan og austan er spáð rigningu og slyddu og jafnvel snjókomu á fjallvegum.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er vakin athygli á spánni fyrir fjallvegi norðaustan og austan til og ferðalöngum ráðlagt að kanna ástand vega áður en lagt er í hann.

Þá er síðdegis spáð snörpum vindhviðum suðaustur af Vatnajökli sem geta verið varasamar bílum sem taka á sig mikinn vind eða eru með vagna aftan í.

Annars er svöl norðanátt ríkjandi eins og verið hefur að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings. Í dag er spáð 8 til 15 metrum á sekúndu og sums staðar hvassara suðaustan til. Rigning eða slydda norðan og austan lands en bjartviðri á Suður- og Suðvesturlandi.

„Svipað veður á morgun, þó heldur meiri úrkoma á norðaustanverðu landinu og minna sólskin suðvestanlands en í dag.

Það er áfram útlit fyrir norðanátt á miðvikudag, með lítilsháttar rigningu austanlands en léttskýjuðu á Suður- og Vesturlandi. Heldur hlýnandi veður,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu:

Vaxandi norðanátt, víða 8-15 m/s í dag en sums staðar 13-18 SA-til síðdegis. Dálítil rigning eða slydda N- og A-lands, en bjart veður á S- og SV-landi. Hiti 2 til 14 stig, hlýjast S-lands. Svipað veður á morgun, en bætir í úrkomu á NA-verðu landinu og þykknar upp SV-lands síðdegis.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Norðan 8-15 m/s, hvassast við austurströndina. Bjart með köflum S- og SV-lands, en rigning eða slydda á NA-verðu landinu. Hiti frá 2 stigum í innsveitum á NA-landi, upp í 14 stig S-lands. Dregur úr vindi á fimmtudag.

Á föstudag:

Norðlæg átt og víða bjart veður, en dálítil væta A-lands. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á S- og V-landi.

Á laugardag og sunnudag (hvítasunnudagur):

Norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og skúrir á stöku stað. Hiti 8 til 15 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.