Innlent

Allt að 15 stiga hiti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sést á þessu hitakorti fyrir daginn er ekki alveg jafn hlýtt um allt land.
Eins og sést á þessu hitakorti fyrir daginn er ekki alveg jafn hlýtt um allt land. veðurstofa íslands

Sólin heldur áfram að skína á menn og málleysingja sunnan- og vestan lands í dag og gætu hámarkshitatölur náð á milli 12 og 15 gráðum að deginum.

Það verður hins vegar kalt fyrir norðan og fylgir kuldanum ofankoma. Mesta úrkoman verður norðaustan til, ýmist rigning eða slydda á láglendi en snjókoma til fjalla.

Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar en þar kemur jafnframt fram að litlar breytingar sé að sjá á veðurspám fram á helgi.

Þó má gera ráð fyrir því að lágmarkshitinn hækki eitthvað aðeins norðan og austan til um helgina og er því svo spáð að það hlýni.

Sunnan og vestan til getur hæglega orðið næturfrost ef vind lægir enda er yfirleitt talað um júlímánuð sem eina mánuð ársins þar sem líkur á næturfrosti séu mjög litlar, segir í hugleiðingunum.

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt, víða 5-13 m/s, en hvassari austast. Rigning eða slydda um norðaustanvert landið, úrkomuminna NV-til, en bjart veður á Suður- og Suðvesturlandi. Hiti 2 til 14 stig að deginum, hlýjast sunnan til á landinu.

Á miðvikudag:
Norðan og norðaustan 8-15 m/s, hvassast við austurströndina. Bjart með köflum sunnan- og vestan lands, en rigning eða slydda á norðaustanverðu landinu. Hiti frá 2 stigum í innsveitum á Norðausturlandi, upp í 14 stig sunnanlands.

Á fimmtudag:
Norðan og norðaustan 5-13 m/s. Skýjað og dálítil úrkoma norðaustan til á landinu, en annars bjart að mestu og þurrt. Hiti 2 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á föstudag:
Norðaustlæg átt. Skýjað og rigning um austanvert landið, en bjart með köflum og úrkomulítið vestan til. Hiti 4 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á laugardag:
Norðaustlæg átt. Bjart með köflum um landið SV-vert, en annars skýjað að mestu og sums staðar dálítil rigning. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast sunnan til.

Á sunnudag (hvítasunnudagur):
Norðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað eða skýjað með köflum, en líkur á síðdegisskúrum, einkum sunnan til. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.