Innlent

Landsmenn hvattir til að fara í bústaðinn

Pálmi Kormákur skrifar
Hitinn gæti rokið upp í allt að 28 gráðum á fimmtudaginn næsta. Mynd: Veðurstofa Íslands
Hitinn gæti rokið upp í allt að 28 gráðum á fimmtudaginn næsta. Mynd: Veðurstofa Íslands

Veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir komandi viku er ein sú allra besta hin síðari ár, en spáin gerir ráð fyrir heiðskíru veðri og nánast logni víðast hvar á landinu. Þá á hitinn að ná hámarki á fimmtudaginn í næstu viku og hitinn gæti rokið upp í 28 gráður á Suðvesturlandinu.

Einboðið er að helgin verði mikil ferðahelgi. Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að hitastigið stefni í 17 stig þegar allra best lætur á Suður- og Vesturlandi. Vel viðrar til ferðalaga.

Aftur á móti er hún ekki eins bjartsýn á veðrið á Norðausturlandi og segir eiga að rigna þar í dag, kólna og mögulega falli einhver snjór á heiðunum, en svo komi til með að draga úr úrkomu á morgun, sunnudag.

Mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi var 30,5 gráður á Celsíus­kvarða en sú mæling var tekin á Teigarhorni á Berufirði þann 22. júní 1939, eða fyrir nánast sléttum 80 árum. Mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík var 24,3 gráður þann 9. júlí árið 1976. Haldi spáin vatni gæti viðrað vel til nýs hitamets í Reykjavík á fimmtudaginn.

Birta segir verða hlýjast, bjartast og þurrast á suðvesturfjórðungnum, Faxaflóasvæðinu og uppsveitum sunnanlands. Sjálf segist hún stefna á að kíkja í sumarbústað í Grímsnesinu um helgina og mælir með því að þeir sem geti geri slíkt hið sama.

Afar sólríkt hefur verið undanfarið í höfuðborginni og eru sólarstundir í júní nú þegar orðnar fleiri en þær voru allan mánuðinn í fyrra.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.