Innlent

Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna liðskiptaaðgerða erlendis sjöfaldaðist á þremur árum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands telur að boðaðar aðgerðir heilbrigðisyfirvalda muni draga úr þörf á liðskiptaaðgerðum erlendis.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands telur að boðaðar aðgerðir heilbrigðisyfirvalda muni draga úr þörf á liðskiptaaðgerðum erlendis. Mynd/Stjórnarráðið
Sexfalt fleiri Íslendingar fóru í liðskiptaaðgerðir erlendis í fyrra en árið 2016 og kostnaður vegna þeirra ríflega sjöfaldaðist milli tímabila. Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir að þetta sé mun meira en gert hafi verið ráð fyrir en býst við að aftur muni draga úr fjölguninni vegna boðaðra aðgerða heilbrigðisyfirvalda.

Landlæknir skilaði í síðustu viku af sér skýrslu um svonefnt biðlistaátak stjórnvalda eftir liðskiptaaðgerðum sem stóð yfir frá 2016 til 2018. Kannað var hvers vegna það hefði ekki skilað sér í meiri styttingu eftir slíkum aðgerðum. Niðurstaðan var að biðtími sjúklinga hefði styst en væri ennþá langt umfram viðmið.

Í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að sé sjúkratryggðum brýn nauðsyn á læknismeðferð erlendis, vegna þess að ekki er unnt að veita honum nauðsynlega aðstoð hér á landi, greiða Sjúkratryggingar Íslands kostnað við meðferðina.

Þá er greitt að fullu fargjald hins sjúkratryggða og fylgdarmanns. Loks eru greiddir dagpeningar vegna nauðsynlegs uppihaldskostnaðar sjúkratryggðs erlendis utan sjúkrastofnunar svo og nauðsynlegs uppihaldskostnaðar fylgdarmanns.

 Frá árinu 2016 hafa slíkar aðgerðir margfaldast en það ár sóttu alls tíu um að fara í slíkar aðgerðir erlendis, þeir voru svo orðnir fjörtíu og fjórir 2017 og nítíu og níu á síðasta ári.

Af þeim fóru fjórir í aðgerð 2016, tólf 2017 og 25 á síðasta ári. Heildarkostnaður Sjúkratrygginga Íslands jókst í takt við þetta og fór á þremur árum úr sex milljónum 2016 í ríflega 45 milljónir árið 2018.

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir að verið sé að vinna í að fjölga aðgerðum hér á landi til að draga úr þessum kostnaði.

„Við gerðum ráð fyrir ákveðinni aukningu en þetta er nú heldur meira en það.  Það er verið að leita leiða til að fjölga þessum aðgerðum hér heima, auka samvinnu stofnanna og koma á sameiginlegum biðlista og fleiri aðgerðir til að draga úr þessari þörf,“ segir María. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×