Innlent

Þristahópflugið áætlar núna lendingu í Reykjavík í kvöld

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hernaðarútgáfan af þristunum nefnist C-47 en borgaralega útgáfan DC-3. Meðal vélanna er þessi, sem kallast Betsy's Biscuit Bomber.
Hernaðarútgáfan af þristunum nefnist C-47 en borgaralega útgáfan DC-3. Meðal vélanna er þessi, sem kallast Betsy's Biscuit Bomber. Mynd/D-DAY-SQUADRON.

Þristahópurinn sem er á leið yfir Atlantshafið lenti í Goose Bay í Kanada í gærkvöldi. Þar hvílast áhafnir núna og búa sig undir næsta legg, sem er til Íslands með millilendingu og eldsneytisstoppi á Grænlandi. 

Núna er miðað við næstu vélar komi til Reykjavíkur um klukkan 21 í kvöld. Engin staðfest tímasetning er þó komin á flugið, að sögn Stefáns Smára Kristinssonar hjá flugþjónustunni ACE FBO, sem annast afgreiðslu vélanna hérlendis. 

Þá hefur orðið sú breyting á flugáætlun að í stað þess að gömlu stríðvélarnar fljúgi allar saman í einu hópflugi verður þeim skipt upp í fleiri hópa, og er búist að 4-5 vélar verði í fyrsta hópnum til Reykjavíkur. Von er á allt að 15 þristum til landsins.

Fyrsti þristurinn kom til Reykjavíkur í gærkvöldi og flýgur áfram í hádeginu í dag. Flugmennirnir veifuðu íslenska fánanum eftir að vélinni var lagt norðan við Loftleiðahótelið. Vísir/KMU.

Fyrsta vélin, einskonar undanfari, kom til Reykjavíkur í gærkvöldi. Áhöfn hennar áætlar brottför núna um hádegisbil áleiðis til Bretlands. 

Vélarnar eru af gerðinni Douglas Dakota C-47, eins og hernaðarútgáfan var kölluð, eða DC-3, en svo nefndist borgaralega útgáfan. Þær eru á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að taka þátt í athöfnum til að minnast þess að þann 6. júní næstkomandi verða 75 ár liðin frá D-deginum árið 1944, sem markaði upphaf innrásarinnar í Normandí í Frakklandi. Einnig munu sumar vélanna taka þátt í viðburðum vegna 70 ára afmælis loftbrúarinnar til Berlínar.  


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.