Innlent

Missti símann sinn við áfengisþjófnað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þjófnaðurinn og handalögmálin urðu í Hlíðahverfi í nótt.
Þjófnaðurinn og handalögmálin urðu í Hlíðahverfi í nótt. VÍSIR/VILHELM
Lögreglan segist hafa haft afskipti af karlmanni á hóteli í Hlíðahverfi Reykjavíkur á öðrum tímanum í nótt. Sá á að hafa viljað fá afgreitt áfengi en verið synjað þar sem búið var að loka fyrir afgreiðslu.

Maðurinn hafi hins vegar ekki látið sér segjast heldur gripið sér nokkrar áfengisflöskur úr kæli. Þegar afgreiðslustúlka reyndi að stöðva manninn þá er maðurinn sagður hafa hrint henni í gólfið og hlaupið út en misst við það farsíma sinn.

„Síðar kom vinur mannsins og ætlaði að sækja símann en sá þá lögreglu og hljóp burt. Númer símans er skráð og verður málið rannsakað,“ segir í dagbók lögreglunnar.

Þar er þess jafnframt getið að brotist hafi verið inn í geymslu fjölbýlishúss um klukkan 21 í gærkvöldi. Þar var ýmsum munum stolið, til að mynda þremur ferðatöskum. Þjófurinn er ófundinn og ætla má að málið sé til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×