Innlent

Eining um að fækka dælunum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær meginlínur og samningsmarkmið í viðræðum við olíufélögin, sem miða að því að fækka bensínstöðvum í borginni um helming. Bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru 75 en á landinu öllu eru þær 250.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann að í stað bensínstöðvanna komi íbúðauppbygging, verslanir eða önnur starfsemi.

„Skilgreindir hafa verið hvatar fyrir olíufélögin til að hraða þessari umbreytingu í samvinnu við borgina í græna átt,“ ritar Dagur.

Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir því að bensínstöðvum verði fækkað um helming fyrir árið 2030. „Nú brá svo við að borgarráði leist svo vel á uppleggið að það sameinaðist um að herða á markmiðinu og stefna á að ná því fyrir árið 2025,“ ritar Dagur og bætir við: „Og allir með.“

Loftslagsáætlun borgarinnar gerir ráð fyrir að bensínstöðvar verði að mestu horfnar árið 2040 og að bílaumferð og almenningssamgöngur verði laus við losun gróðurhúsalofttegunda sama ár. Árið 2030 er stefnt að því að hlutdeild bílaumferðar verði 58 prósent, almenningssamgangna verði 12 prósent og gangandi og hjólandi 30 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×