Innlent

Rúmlega tvöfalt fleiri kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandi

Sighvatur Jónsson skrifar
Suðurlandsvegur.
Suðurlandsvegur. Mynd úr safni.
Rúmlega tvöfalt fleiri ökumenn hafa verið kærðir fyrir hraðakstur á Suðurlandi fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi telur þetta hafa leitt til fækkunar slysa.

Frá því um áramót hefur lögreglan á Suðurlandi bætt í eftirlit með hraðakstri á vegum. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi, segir að markmiðið sé að fækka slysum með sýnilegri löggæslu.

„Við erum með 995 ökumenn kærða fyrir of hraðan akstur á Suðurlandinu öllu fyrstu fjóra mánuði ársins á móti 480 á sama tímabili í fyrra. Þannig að þetta er tvöföldun á fjölda,“ segir Oddur.

Fækkun slysa

Oddur telur að aðgerðirnar hafi leitt til fækkunar slysa þó ekki sé hægt að fullyrða um varanlegan árangur eftir einungis fjögurra mánaða tímabil.

Hann segir að þeir ökumenn sem hafa verið stöðvaðir af lögreglu á öllu Suðurlandi fyrstu fjóra mánuði ársins séu að stærstum hluta erlendir.

„Það eru rétt rúmlega tveir þriðju hlutar sem eru erlendir ferðamenn sem við erum að hafa afskipti af. Það er sennilega í samræmi við þann fjölda sem er í umferðinni á hverjum tíma,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×