Innlent

Flott maíveður verður í vikunni

Sveinn Arnarsson skrifar
Vel mun viðra á Akureyringa í vikunni.
Vel mun viðra á Akureyringa í vikunni. Fréttablaðið/Auðunn
Það stefnir í fínasta maíveður í vikunni eftir nokkuð napra daga að undanförnu. Að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, munu skilin sem eru nú á leið yfir landið reka kalda loftið endanlega á brott en þau verða komin alveg norður fyrir um miðjan dag.

„Maí er alla jafna svolítið kaldur mánuður því það er algengt að leifarnar af vetrarkuldanum rati hingað með norðanáttinni. Þannig að það er ágætt að hún stóð ekki lengur en hún gerði núna,“ segir Óli Þór.

Núna taki við suðlægar áttir sem standi allavega út vikuna. Þessu munu fylgja töluverð hlýindi, sérstaklega fyrir norðan.

„Eins og eðlilega vill verða í suðaustan- og sunnanáttum eru hlýindin mest fyrir norðan. Þar verður hitinn yfir daginn mjög víða svona 12 til 18 stig. Á meðan verða þetta kannski vona 9 til 12 stig á sunnanverðu landinu,“ segir Óli Þór.

Hann segir að nú taki við mun úrkomuminna veður þó að það verði alls ekki þurrt á sunnan- og vestanverðu landinu.

„Hins vegar þá er vel hlýtt loft yfir öllu landinu en það verður mun hlýrra fyrir norðan. Þetta er bara mjög flott maíveður,“ segir Óli Þór.

Samkvæmt vef Veðurstofunnar er besta veðrinu spáð á morgun, þriðjudag, og þá sérstaklega á Norður- og Austurlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×