Fluttur á slysadeild eftir líkamsárás í Grafarvogi

Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar eftir líkamsárás í heimahúsi í Grafarvogi á tíunda tímanum í dag. Gerandi var handtekinn og verður hann yfirheyrður síðar í dag. Ekki fengust upplýsingar um meiðsl þolanda í dagbók lögreglu þar sem greint er frá málinu.
Þá er greint frá tveimur útköllum sem lögregla sinnti ásamt slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í dag. Um hádegisbil var tilkynnt um mikla brunalykt í sameign fjölbýlishúss í Kópavogi. Við athugun lögreglu kom í ljós að pottur hafði gleymst á eldavél. Slökkvilið reykræsti.
Klukkan tíu mínútur í tvö var tilkynnt um eld í fyrirtæki í Hafnarfirði. Slökkvilið kom og slökkti eldinn. Lögregla vinnur að rannsókn málsins en hefur ekki upplýsingar um tjón á húsnæðinu.
Á níunda tímanum var tilkynnt um innbrot á vinnusvæði í austurbæ Reykjavíkur. Stuttu síðar var einn aðili handtekinn grunaður um aðild að málinu. Viðkomandi bíður viðtals síðar í dag.
Þá voru tveir ökumenn handteknir á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur. Í öðru tilvikinu reyndist bifreiðin jafnframt ótryggð og voru skráningarnúmer því fjarlægð.
Einnig hefur lögregla þurft að koma ölvuðu fólki til aðstoðar það sem af er degi.