Innlent

Allt að 18 stiga hiti í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hitaspáin eins og hún lítur út klukkan 15 í dag.
Hitaspáin eins og hún lítur út klukkan 15 í dag. Skjáskot/veðurstofa íslands
Hiti gæti náð upp í 18 stig á norðaustanverðu landinu í dag en svalara verður sunnan- og vestanlands, þar sem búast má við 8-13 gráðum og rigningu.

Í dag er útlit fyrir hæga austlæga átt á landinu, en ákveðnari vindi með suðurströndinni, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Líkt og í gær má áfram búast við rigningu af og til sunnan- og vestanlands og hita þar 8 til 13 stig.

Það hefur verið hlýtt undanfarið á norðaustanverðu landinu og þar gæti hiti náð upp í 18 stig í dag þar sem birtir til en þokubakkar verða þó á sveimi við ströndina með mun svalara veðri.

Á morgun bætir svo aðeins í vind, útlit er fyrir norðaustan golu eða kalda, jafnvel strekking á Vestfjörðum. Það verður væntanlega skýjað að mestu á landinu en úrkoma lítil eða engin.

Það kólnar svo norðaustanlands frá því sem verið hefur. Hæsti hitinn á morgun verður um 15 stig, annað hvort í Skagafirði eða Borgarfirði. Að lokum má nefna að dálítið regnsvæði er væntanlegt inn á sunnanvert landið annað kvöld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Skýjað á landinu og sums staðar lítilsháttar væta, en rigning með köflum sunnanlands. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Vesturlandi. 

Á þriðjudag og miðvikudag:

Norðaustan 3-10. Skýjað en úrkomulítið norðan- og austanlands. Skýjað með köflum suðvestantil á landinu og líkur á skúrum síðdegis. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast suðvestanlands. 

Á fimmtudag og föstudag:

Norðan eða norðaustan 5-13 og að mestu þurrt, en léttir til um landið suðvestanvert. Hiti frá 3 stigum í innsveitum á Norðausturlandi, upp í 12 stig á Suðvesturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×