Innlent

Sólin hífir hitatölurnar upp eftir næturfrost

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hitaspáin klukkan fimm í dag.
Hitaspáin klukkan fimm í dag. Skjáskot/veðurstofa íslands

Í nótt var frost 0 til 4 stig norðan- og austanlands. Einnig voru dálítil él á Austurlandi svo þar hefur sums staðar gránað, sér í lagi á heiðum, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Einnig var hiti kringum frostmark í uppsveitum á Suðurlandi og við Faxaflóa en í nótt rofaði til á þessum slóðum.

Í dag er svo útlit fyrir hæga suðlæga eða breytilega átt. Búast má við dálitlum skúrum á víð og dreif á Suður- og Vesturlandi. Um landið norðan- og austanvert léttir smám saman til og sólin fer að skína þannig að hitatölurnar stefna upp á við eftir kulda næturinnar.

Á morgun er útlit fyrir vestan golu eða kalda. Skýjað með köflum og víða þurrt. Gengur hins vegar í norðvestan strekking í norðausturfjórðungnum og með honum fylgir svolítil væta. Hiti 5 til 13 stig á morgun, hlýjast á Suðausturlandi þar sem verður jafnframt sólríkast.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Vestan 3-8 m/s og skýjað, en 8-13 með norðurströndinni og dálítil væta. Hiti 5 til 12 stig yfir daginn, hlýjast á Suðausturlandi. 

Á sunnudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-8. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt á landinu. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst. Líkur á vægu næturfrosti á Norður- og Austurlandi. 

Á mánudag:
Hæg breytileg átt. Dálitlir skúrir sunnanlands, en víða bjart um landið norðanvert. Hiti 2 til 10 stig, svalast með austurströndinni. 

Á þriðjudag:
Norðlæg eða breytileg átt. Skýjað og úrkomulítið um landið norðanvert, en skúrir sunnanlands. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst. 

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útilit fyrir norðan og norðaustanátt með lítilsháttar éljum á Norður- og Austurlandi, en bjart með köflum sunnan heiða. Hiti um frostmark fyrir norðan, en að 6 stigum syðra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.