Innlent

Kuldinn víkur ekki fyrr en í næstu viku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hitaspáin lítur svona út klukkan 17 í dag.
Hitaspáin lítur svona út klukkan 17 í dag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veður verður nokkuð stöðugt það sem eftir lifir vikunnar, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Köld tíð er í vændum með ríkjandi norðlægum áttum og ekki að sjá að það breytist neitt fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag eða mánudag.

Loftið er upprunnið á heimsskautasvæðinu og „viðbúið að það muni leiða af sér snjókomu eða slyddu norðan- og austanlands næstu daga.“ Þó er ekki að sjá að ofankoman verði stöðug eða mikil og á láglendi getur hiti skriðið nokkrar gráður yfir frostmarkið yfir hádaginn, sem ætti að nægja til að taka upp þann snjó sem fellur.

Sunnan- og vestanlands verður öllu bjartara yfir næstu daga, þótt vissulega verði napurt þar sem norðangjólan nær sér á strik.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðaustan 5-13 m/s og dálítil él norðan- og austanlands, en þurrt annars staðar og bjart veður á köflum. Hiti 1 til 9 stig, mildast S-til, en víða næturfrost. 

Á föstudag og laugardag:
Áframhaldandi norðlægar áttir með dálitlum éljum, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti breytist lítið. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt. Þurrt og svalt veður, einkum fyrir norðan. 

Á mánudag:
Hvöss austlæg átt með rigningu víða um land og hlýnandi veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.