Innlent

Yfir 17 stiga hiti í Reykjavík í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitakortið núna klukkan 18 er alveg ágætt.
Hitakortið núna klukkan 18 er alveg ágætt. veðurstofa íslands
Það hefur verið óvenju hlýtt víða um land í dag miðað við árstíma samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands og mældist til að mynda 17,1 gráða á sjálfvirku stöðinni við Veðurstofunnar í Reykjavík í dag.

Teitur Arason, veðurfræðingur, segir að þar með sé líklega hitametið í Reykjavík fyrir aprílmánuð fallið en enn á eftir að yfirfara hitatölur dagsins.

„Það hefur farið hæst í 19,3 á Þingvöllum, 19,2 í Skagafirði og 19 á Bíldudal þannig að þetta er nokkuð víða um land,“ segir Teitur í samtali við Vísi.

Hann segir að tölurnar í veðurfarsyfirlitinu fyrir aprílmánuð verði mjög áhugaverðar.

„Því þetta er sennilega hlýjasti aprílmánuður síðan mælingar hófust í Reykjavík og Stykkishólmi og mögulega jafnar hann meðalhitametið á Akureyri. Þetta er búið að vera mjög hlýr mánuður og þetta er eiginlega toppurinn á hlýindakaflanum dagurinn í dag. Síðan fer hitinn niður á við þegar það kemur kalt loft úr norðri,“ segir Teitur en hlýindin hófust þann 12. apríl síðastliðinn, föstudaginn fyrir pálmasunnudag.

Teitur segir að veðrakerfin séu núna að skipta um gír og það verði ekki eins hlýtt næstu daga. Hitinn muni að öllum líkindum fara undir meðalhita árstímans og búast má við næturfrosti fyrir norðan og austan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×