Innlent

Mikill viðbúnaður vegna elds í bílakjallara við Sléttuveg

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn voru nýmættir á staðinn um tíuleytið í morgun.
Slökkviliðsmenn voru nýmættir á staðinn um tíuleytið í morgun. Skjáskot/Stöð 2

Mikill viðbúnaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu er nú við Sléttuveg 7 í Fossvogi vegna elds í bílakjallara. Allt tiltækt lið slökkviliðsins var sent á staðinn en verið er að rýma húsið vegna mikils reyks.

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra var mikill reykur í bílakjallaranum þegar slökkvilið bar að garði og lagði hann upp í stigagang hússins. Reykræsting hófst þó strax og tókst að koma í veg fyrir að reykurinn kæmist upp til íbúanna, að sögn varðstjóra. 

Þá er búið að boða Rauða krossinn út auk strætisvagns fyrir íbúa að dvelja í á meðan slökkvilið vinnur á vettvangi. Útkallið barst um tíuleytið í morgun og gert er ráð fyrir að slökkvistarf haldi áfram fram eftir degi.

Uppfært klukkan 11:17:
Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá dekkjum og rusli í bílakjallaranum, sem er í húsnæði á vegum Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg. Slökkviliðið gefur ekki upp hvort grunur sé um íkveikju. Slökkvistarf er enn í gangi á vettvangi.

Uppfært klukkan 14:31:
Allri vinnu slökkviliðs er lokið við Sléttuveg og hefur vettvangur verið afhentur lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Eldurinn kviknaði í fjölbýlishúsi Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg. Skjáskot/Stöð 2


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.