Lífið

Stílhrein stálsmíði Anítu Hönnu

Aníta Hanna Sævarsdóttir segist í hönnun sinni reyna að aðlaga sig óskum fólks og heimili.
Aníta Hanna Sævarsdóttir segist í hönnun sinni reyna að aðlaga sig óskum fólks og heimili.
Stálsmíði Anítu Hönnu Sævarsdóttur í mínímalískum stíl hefur undanfarið vakið athygli í hinum ýmsu Face book-hópum tileinkuðum innanhússhönnun og smekklegum heimilishugmyndum. 

Aníta Hanna Sævarsdóttir hannar undir nafninu Holt Heima List og flestir munirnir eru í mínímalískum stíl. En það er skemmtileg saga á bak við það hvernig Aníta endaði á að selja og sérsmíða heimilismuni úr stáli.

„Ég byrjaði að læra bílamálun. Bílamálun var alltaf númer tvö hjá mér, ég fann bara aldrei þetta númer eitt eða það sem mig langaði mest að gera. Pabbi minn er bílamálari og afi meistari í bílamálun, þannig að þetta lá beint við. Ég er alin upp í þessu og skellti mér í það nám og fannst skemmtilegt,“ segir Aníta.

Aníta kláraði námið en var ekki tilbúin að hætta í skóla því hana grunaði að hún myndi ekki geta snúið aftur í nám síðar.

„Þannig að ég skellti mér í vélvirkjun og kláraði hana. Ég vann aðeins við það, flutti austur og vann í álverinu,“ segir hún.

Eftir það flutti Aníta suður og í fæðingarorlofi sínu ákvað hún að drífa sig í stálsmíðina.

„Mig vantaði svo lítið upp á að klára það af því að ég var búin með vélvirkjun. Mig vantaði aðeins nokkrar einingar,“ segir hún. Aníta tekur aðallega við pöntunum á Facebook-síðu sinni, Holt Heima List. Nafnið er dregið af heimili fjölskyldunnar.

„Við búum náttúrulega í Ölvisholti og okkur langaði að tengja þetta við það. Svo er þetta líka það sem ég kalla heimalist, list fyrir heimilið. Ég reyni að aðlaga mig óskum fólks, þeirra rými og heimili.“

Aníta segist stundum sækja innblásturinn á einfaldan hátt eins og á Pinterestvefsíðunni en hann getur þó komið frá hinum ýmsu ólíku stöðum. Aníta segir að stílhreinir munir séu vinsælastir í dag.

„Til að byrja með var ég ekki í svona einföldum stíl. Ég á skrollvél til að búa til stálrúllur. Svo elska ég að sjóða, mér finnst það skemmtilegast. Mig langar ekki að vera eingöngu í svona einföldum verkefnum, mig langar til að búa til eitthvað fallegt og vera skapandi. Taka eitthvað venjulegt og gera það óvenjulegt.”

Þó fer hver að verða síðastur að panta af Anítu þar sem hún hyggst flytja til Noregs eftir tæpa tvo mánuði.

„Já, þá fá Norðmenn bara að njóta þess í staðinn,“ segir Aníta kímin. Hægt er að nálgast muni Anítu á Facebook-síðu hennar Holt Heima List.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×