Innlent

„Sæmilegasta“ veður og allt að 17 stiga hiti í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það eru töluverð hlýindi í kortunum í dag, ef marka má hitaspána síðdegis í dag.
Það eru töluverð hlýindi í kortunum í dag, ef marka má hitaspána síðdegis í dag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Lægðin sem olli staðbundnum stormi syðst á landinu í gærkvöldi og í nótt fjarlægist nú og dregur því úr vindi með morgninum. Í dag stefnir í sæmilegasta veður, rigningu SA-lands, en þurrt að mestu annars staðar og ágætis líkur á að sjáist til sólar, sérstaklega fyrir norðan þar sem verður líklega hlýjast eða upp í 17 stig.“ Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands en landsmenn eiga greinilega flestir von á fínum veðurdegi.

Á morgun er svo spáð tíðindalitlu veðri. „Sumir myndu kalla það gott veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. Hið tíðindalitla veður einkennist af enn þá hægari vindi en í dag og lítilsháttar vætu sunnantil en þurru veðri annars staðar. Þó er útlit fyrir síðdegisskúri vestanlands, þ. á m. á höfuðborgarsvæðinu.

„Það hlýnar einnig og spennandi verður að sjá hvar hámarkshitinn verður.“

Á miðvikudaginn kólnar nokkuð skarpt um landið norðan- og austanvert þar sem hiti verður kominn niður í 1 til 5 stig norðaustantil. Annars stefnir í hægan vind um allt land framan af degi og lítilsháttar vætu víða.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Austan 5-13 m/s og dálítil rigning um landið sunnanvert, en síðdegisskúrir V-lands. Hæg breytileg átt fyrir norðan og bjartviðri. Hiti 11 til 17 stig. Þokuloft með N- og A-ströndinni og heldur svalara. 

Á miðvikudag:
Norðaustan 5-13 m/s og skýjað en úrkomulítið N- og A-lands, hiti 2 til 7 stig. Hægari breytileg átt sunnan heiða, skýjað með köflum og stöku síðdegisskúrir með hita að 15 stigum. 

Á fimmtudag:
Breytileg átt 3-8 m/s á vesturhelmingi landsins, svolítil væta og hiti 3 til 8 stig. Norðan 5-10 austanlands, skýjað og hiti um frostmark. 

Á föstudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og dálítil rigning S- og V-til, en bjart með köflum fyrir norðan. Hiti 3 til 9 stig. 

Á laugardag:
Breytileg átt og dálítil væta fyrir norðan, en þurrt annars staðar. Hiti breytist lítið. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir austlæga átt, þurrviðri og kólnandi veður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.