Innlent

Þakkar fyrir að hafa ekki verið búinn að rýja kindurnar

Eiður Þór Árnason skrifar
Skemman fór illa í eldsvoðanum.
Skemman fór illa í eldsvoðanum. Arnar Gústafsson

Eldur kviknaði í skemmu á bænum Brimnesi á Dalvík í kvöld og var allt tiltækt slökkvilið bæjarins kallað út. Hvorki urðu slys á mönnum né dýrum. 

Slökkviliðið á Dalvík naut aðstoðar frá slökkviliðinu á Akureyri og var körfubíll frá þeim nýttur á vettvangi. Mbl.is greindi fyrst frá málinu.

„Við erum búnir að einangra eldinn við fjósið, engar skepnur inni og teljum okkur vera búnir að ná tökum á því að megninu til,“ sagði Vilhelm Hallgrímsson, slökkviliðsstjóri á Dalvík, í samtali við fréttastofu rétt fyrir klukkan níu í kvöld. 

Arnar á von á því að byggingin sé ónýt. Arnar Gústafsson

Hefði getað farið verr

Arnar Gústafsson, íbúi á bænum á Brimnesi, þakkar fyrir að engar skepnur hafi verið í skemmunni þegar eldurinn kom upp. Verið sé að rífa allt þakið af húsinu og það að líkindum ónýtt. Íbúðarhúsið sé í öruggri fjarlægð og því óskemmt. 

„Ég var bara heppinn því ég var ekki búinn að láta kindur inn,“ bætir Arnar við. Yfirleitt hafi hann verið búinn að rýja kindurnar og færa þær tímabundið í rýmið sem varð eldinum að bráð.

Bærinn Brimnes í Dalvíkurbyggð.Já.is

Arnar segir að eldsvoðinn sé áfall en hann geri ráð fyrir að finna betur fyrir því síðar. Hann var ekki heima þegar eldurinn braust út en ætlaði að klára að moka út úr skemmunni þegar hann sneri aftur heim. 

Enn var unnið að því að slökkva eldinn þegar fréttamaður ræddi við Arnar um klukkan 22:30. Fylgst verður með byggingunni í nótt þar sem hætta er á því að eldur komi upp aftur. 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 23:09.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×