Innlent

Til skoðunar að halda Secret Solstice í Ölfusi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Secret Solstice verður mögulega haldin í Ölfusi þetta árið.
Secret Solstice verður mögulega haldin í Ölfusi þetta árið. Vísir/vilhelm
Til skoðunar er að halda tónlistarhátíðina Secret Solstice í Fákaseli á Ingolfshvoli í sumar en viðræður eru hafnar á milli forsvarsmanna tónlistarhátíðarinnar og rekstraraðila Fákasels.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjóra Fákasels.

Vísir greindi frá því í gær að forsvarsmenn Live Events, fyrirtækisins sem fer nú með rekstur Secret Solstice, hyggjast halda hátíðina í sumar óháð stuðningi Reykjavíkurborgar. Það kemur síðan í ljós á morgun hvað Reykjavíkurborg hyggst gera í málinu en í kvöldfréttum RÚV kom fram að tónlistarhátíðin skuldi borginni um tíu milljónir.

Bæjarstjóri Ölfuss hefur áður sagt að áhugi sé fyrir hendi að halda Secret Solstice í bæjarfélaginu. Elliði Vignisson sagði í viðtali við fréttastofu í gær að hann væri áhugasamur og vildi styðja við menningu og listir í bæjarfélaginu.

Vill finna leiðir til að snúa vandamálum í verkefni

Elliði skrifar í stöðuuppfærslu á Facebook að á fundi með forsvarsmönnum tónlistarhátíðarinnar hefðu nokkrir staðir verið ræddir í þessu samhengi.

„Hér í hamingjunni höfum við það fyrir reglu að segja ekki „nei“ áður en við höfum sagt „kannski“. Við skoðum málin yfirvegað, reynum að finna leiðir til að styðja við hugmyndir og snúa vandamálum í verkefni,“ skrifar Elliði.



„Við sem funduðum ákváðum að halda samtalinu áfram. Við vorum líka allir sammála um að ef ákveðnum forsendum er mætt þá er Ölfusið hér í útjaðri borgarinnar einkar heppilegt til þessa að hýsa hátíð sem þessa,“ skrifar Elliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×