Innlent

Enn fleiri þurfa að bíða í meira en 90 daga eftir hjúkrunarrými

Ari Brynjólfsson skrifar
Alma D. Möller, landlæknir. Í nýrri greinargerð embættisins segir að löng bið eftir hjúkrunarrýmum sé verulegt áhyggjuefni.
Alma D. Möller, landlæknir. Í nýrri greinargerð embættisins segir að löng bið eftir hjúkrunarrýmum sé verulegt áhyggjuefni. Aðsend
Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum halda áfram að lengjast á milli ára. Í dag þurfa 42 prósent þeirra sem bíða eftir hjúkrunarrými að bíða í meira en 90 daga eða lengur samanborið við 26 prósent árið 2014.

Fram kemur í nýrri greinargerð Landlæknisembættisins að löng bið eftir hjúkrunarrýmum sé verulegt áhyggjuefni sem endurspeglast meðal annars í fjölda einstaklinga sem bíða eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili á Landspítalanum.

Í nýlegri hlutaúttekt embættisins vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku spítalans kemur fram að í desember síðastliðnum hafi 53 einstaklingar beðið á Landspítalanum eftir hjúkrunarrými. Auk þess voru 68 einstaklingar í sérstökum biðrýmum, eða alls 121 einstaklingur.

Er það mat embættisins að dvöl aldraðra á bráðasjúkrahúsi eftir að meðferð þar lýkur skerði lífsgæði þeirra og getur leitt til frekara færnitaps auk hættu á sýkingum.

Í febrúar var rúmanýting að meðaltali 103 prósent á þeim átta deildum Landspítalans sem sinna öldruðum. Alls eru 2.700 hjúkrunarrými á landinu samkvæmt opinberum tölum.

Áætlað er að allt að 270 ný rými vanti til viðbótar við þau hjúkrunarrými sem þegar hefur verið ákveðið að byggja, auk þess þurfi að bæta eða endurbyggja allt að 400 hjúkrunarrými til að mæta kröfum um bættan aðbúnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×