Innlent

Lögregla í eftirlitsferð slökkti eld í heimahúsi

Andri Eysteinsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Ísafjarðarbær í Skutulsfirði.
Ísafjarðarbær í Skutulsfirði. Vísir/Pjetur
Eldur kom upp í húsi á Ísafirði í nótt. Lögreglumenn í eftirlitsferð urðu varir við mikinn reyk sem lagði frá húsinu og ræstu út slökkvilið. Í ljós kom að eldur logaði í sólpalli og í timburklæðningu hússins.

Á meðan að lögreglumenn biðu eftir slökkviliði héldu þeir eldinum í skefjum og tókst að slökkva mestan eldinn. Fjórir voru sofandi inni í húsinu þegar eldurinn kom upp og vakti lögregla húsráðendur, í húsinu voru ung hjón, tvö börn þeirra ásamt hundum fjölskyldunnar.

Að sögn lögreglu þykir mikil mildi að ekki fór verr, líklegt sé að hafi lögregla ekki orðið vör við reykinn hefði blossað þar uppi stórt bál. Einhverjar skemmdir voru á húsinu vegna eldsins, sólpallurinn er skemmdur, litlar skemmdir eru innan húss og saga þurfti til klæðningu utan á húsinu til þess að athuga hvort enn brynni þar eldur.

Nóttin var að mestu róleg á Ísafirði að þessu máli undanskildu, tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður hefst í kvöld og má því búast við miklum fjölda fólks í bænum yfir Páskahelgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×