Innlent

Tilkynnti ekki um andlát föður og millifærði milljónir af bankareikningi hans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Héraðsdómur Norðurlands vestra.
Héraðsdómur Norðurlands vestra.
Tæplega sextug kona hefur verið ákærð fyrir fjárdrátt með því að hafa millifært 2,2 milljónir króna af reikningi nýlátins föður síns sem búsettur var á norðvesturlandi. Segir í ákæru að hún hafi látið hjá líða að tilkynna andlátið formlega til sýslumanns.

Fjórir bræður konunnar gera kröfu að hún verði dæmd í opinberu máli til að greiða þeim og dánarbúinu 2450 þúsund krónur í bætur með dráttarvöxtum.

Konan mun vera búsett í Bretlandi og er ákæran birt í Lögbirtingablaðinu í dag. Meint brot áttu sér stað á níu daga tímabili í lok október árið 2015. Faðir hennar lést þann 22. október 2015 en daginn eftir millifærði konan 1700 þúsund krónur í þremur greiðslum af reikningi föður síns yfir á eigin reikning.

Viku síðar millifærði hún svo tvívegis 250 þúsund krónur. Hagnýtti hún sér umrædda fjármuni í eigin þágu án heimildar segir í ákærunni.

Konan er yngst fimm systkina en bræður hennar gera sem fyrr segir kröfu um bætur vegna málsins sem rekið verður fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×