Innlent

Semja þarf við fjölmarga landeigendur vegna breikkunar Vesturlandsvegar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Landeigendur eiga von á kynningarbréfi frá Vegagerðinni í þessari viku vegna breikkunar Vesturlandsvegar.
Landeigendur eiga von á kynningarbréfi frá Vegagerðinni í þessari viku vegna breikkunar Vesturlandsvegar. Vísir/Arnar Halldórsson
Landeigendur eiga von á kynningarbréfi frá Vegagerðinni í þessari viku vegna breikkunar Vesturlandsvegar. Forstöðumaður skipulagsdeildar Vegagerðarinnar segir um fjölmarga landeigendur að ræða en þeir eiga landið á öllu framkvæmdarsvæðinu, alls um níu kílómetra.

Breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes var frestað í vetur og eins milljarðs króna fjárveiting sem ætluð var til verksins næstu tvö ár skorin niður í 400 milljónir króna. Ástæðan var sögð tafir við verkhönnun og að eftir hafi átt að gera samninga við landeigendur.

Erna Bára Hreinsdóttir forstöðumaður skipulagsdeildar Vegagerðarinnar segir um fjölmarga landeigendur að ræða en þeir fyrstu fái kynningarbréf um framkvæmdirnar í þessari viku.

„Fyrstu bréfin fara út í vikunni. Framkvæmdin nær til níu kílómetra og á öllum þeim kafla þurfum við að semja meira eða minna við fjölmarga landeigendur þ.e. þeir eiga landið,“ segir Erna.  

Vegagerðin hefur jafnframt boðið hönnun vegarins út. 

„Við erum búin að bjóða hönnunina út núna og verða endalega tilboð opnuð 14. maí,“ segir Erna. 

Vonast er til að framkvæmdir hefjist á þessu ári. 

„Vonandi tekst okkur að bjóða út einhvern lítinn hluta núna 2019 og svo 2020-2022 verða framkvæmdir samkvæmt samgönguáætlun,“ segir Erna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×