Innlent

Ekki rætt um frestun verkfalls

Kjartan Kjartansson skrifar
Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari. vísir/vilhelm
Ríkissáttasemjari segir að ekki hafi komið til tals að fresta boðuðum verkföllum á fundum með Samtökum atvinnulífsins og sex verkalýðsfélaga. Efling og VR hafa boðað til verkfalla rútubílstjóra og hótelstarfsmanna sem á að hefjast á miðnætti.

Deiluaðilar hafa fundað í dag og segir Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, að ágætis samtal hafi átt sér stað. Halda átti fundum áfram klukkan 18:00 og sitja við samningaborðið eitthvað fram eftir kvöldi.

Bryndís segist ekki eiga von á að til tals komi að fresta verkfallsaðgerðunum sem eiga að hefjast í kvöld. Þá segir hún afar ólíklegt að gengið verði frá samningi í kvöld.

Spurð út í möguleikann á að hún leggi fram miðlunartillögu segir hún engan veginn tímabært að gera það á þessu stigi viðræðnanna. Það sé eitthvað sem gerist vanalega á síðari stigum.

„Við erum á allt öðrum stað núna. Það hefur ekki komið til tals,“ sagði hún í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Verkfall félagsmanna Eflingar og VR á að standa yfir í sólahring. Það á að ná til um tvö þúsund hótelsstarfsmanna og rútubílstjóra. Reykjavíkurborg hefur tilkynnt að skólaakstur falli niður vegna verkfallsins á morgun.


Tengdar fréttir

Túlka verkfallsboðun ekki með sama hætti

Efling og SA túlka með mismunandi hætti til hvaða starfsmanna boðuð verkföll, sem hefjast eiga á miðnætti, nái til. Verkfallið myndi ná til um 2.600 félagsmanna Eflingar og VR á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×